Agla María framlengir við meistarana

Agla María Albertsdóttir við merki Breiðabliks eftir undirskriftina.
Agla María Albertsdóttir við merki Breiðabliks eftir undirskriftina. Ljósmynd/Breiðablik

Landsliðskonan Agla María Albertsdóttir, sem kjörin var íþróttakona Kópavogs 2018, hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks í knattspyrnu.

Agla María er 19 ára gömul, spilaði alla leiki Blika í deild og bikar í fyrra og skoraði tíu mörk þegar liðið varð tvöfaldur meistari. Hún kom aftur til uppeldisfélagsins fyrir meistaratímabilið í fyrra, eftir að hafa spilað um tíma með Val og Stjörnunni.

Agla María á að baki 23 leiki með A-landsliði Íslands og var meðal annars í lokahópnum sem fór í lokakeppni EM í Hollandi sumarið 2017, þá aðeins 17 ára gömul. Hún hefur skorað tvö mörk fyrir landsliðið, auk tíu marka í 27 leikjum með yngri landsliðunum.

„Blikar eru í skýjunum með að hún hafi framlengt samning sinn við félagið. Hér er á ferðinni einn besti leikmaður deildarinnar, fyrir utan hvað hún spilar stórt hlutverk í landsliðinu, og er mikilvæg fyrirmynd í herbúðum félagsins,“ segja Blikar eftir tíðindin.

Agla María Albertsdóttir, hér fyrir miðri mynd, faðmar liðsfélaga sína …
Agla María Albertsdóttir, hér fyrir miðri mynd, faðmar liðsfélaga sína á einni af mörgum sigurstundum Blika síðasta sumar. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka