Karlalið Víkings frá Ólafsvík í fótbolta hefur bætt við sig tveimur leikmönnum fyrir átökin í sumar. Sallieu Tarawallie, landsliðsmaður frá Síerra Leóne, og Martin Kuittinen, finnskur kantmaður af pólskum ættum, hafa skrifað undir samninga við Víkinga.
Tarawallie, sem er 24 ára, getur leikið bæði sem kantmaður og framherji. Hann samdi við Víking í febrúar en ekki var hægt að kynna hann fyrr en nú, þar sem pappírsmál drógust á langinn. Hjá Víkingi hittir hann fyrir landa sinn Ibrahim Barrie.
Kuittenen er 22 ára og á hann að baki landsleiki fyrir yngri landslið Póllands. Hann hefur síðustu ár spilað í Portúgal. Kuittenen var í æfingaferð með Víkingi á Spáni nýverið og skoraði hann m.a. mark gegn Cartagena B.
„Við bjóðum þessa tvo nýju leikmenn hjartanlega velkomna til Ólafsvíkur,“ segir í tilkynningu frá Víkingi í Ólafsvík.