Sex mörk og mikið fjör í fyrsta leik

Íslandsmeistarar Vals hófu titilvörn sína á Íslandsmóti karla í fótbolta með 3:3-jafntefli gegn Víkingi Reykjavík á heimavelli í fyrsta leik Pepsi Max-deildarinnar í kvöld. Leikurinn var hin mesta skemmtun og sérstaklega í seinni hálfleik. 

Víkingur var óvænt með 1:0-forystu í hálfleik. Valsmenn voru mikið með boltann á meðan Víkingar reyndu að refsa úr skyndisóknum. Það var einmitt eftir slíka sem eina mark fyrri hálfleiksins kom.

Eiður Aron Sigurbjörnsson, varnarmaður Vals, sendi þá beint á Rick ten Voorde og Hollendingurinn sótti að vörn Vals áður en hann sendi glæsilega á Nikolaj Hansen, sem skilaði boltanum framhjá Antoni Ara Einarssyni, markmanni Vals, og í netið.

Valsmenn voru sterkari í upphafi seinni hálfleiks og jókst pressan með hverri mínútunni. Það kom því lítið á óvart þegar Emil Lyng jafnaði á 55. mínútu. Hann kláraði þá vel eftir magnaða sendingu inn fyrir vörnina frá Einari Karli Ingvarssyni. 

Íslandsmeistararnir voru mun meira með boltann eftir markið og reyndu þeir hvað þeir gátu til að skora annað mark gegn þéttum Víkingum. Þórður Ingason í marki Víkings þurfti hins vegar ekki að taka á honum stóra sínum. 

Korteri fyrir leikslok komust gestirnir aftur yfir úr annarri skyndisókn. Varamaðurinn Logi Tómasson fékk boltann við miðlínuna, tók á rás, klobbaði báða miðverði Valsmanna og negldi boltanum upp í samskeytin. Þótt að um fyrsta leik sumarsins er að ræða, verður þetta eflaust eitt af flottustu mörkum tímabilsins þegar uppi er staðið. 

Það tók Val aðeins fjórar mínútur að jafna á nýjan leik. Kristinn Ingi Halldórsson átti þá skalla að marki, Þórður varði, en beint fyrir fætur Birkis Más Sævarssonar sem skoraði í autt markið af stuttu færi. 

Víkingur komst yfir í þriðja skipti á 88. mínútu er Sölvi Geir Ottesen skallaði í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu Loga Tómassonar. Aðeins mínútu síðar jafnaði Gary Martin með góðu skoti í stöng og inn. Fleiri urðu mörkin ekki og skiptu liðin með sér stigunum. 

Valur 3:3 Víkingur R. opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert