„Hendrickx mun líklega fara í glugganum“

Ágúst Gylfason þjálfari Breiðabliks.
Ágúst Gylfason þjálfari Breiðabliks. Eggert Jóhannesson

„Þetta var erfið fæðing. Grindvíkingar mættu vel gíraðir í leikinn varnarlega,“ sagði Águst Gylfason þjálfari Breiðabliks eftir 0:2 sigur á Grindavík í fyrstu umferð Pepsi Max deildar karla.

„Við náum illa að brjóta þá á bak aftur. Í fyrri hálfleik hefði ég viljað að við hefðum skapað okkur meira þótt spilið hafi verið algjörlega okkar. En í seinni hálfleik þurftu þeir að koma framar á völlinn og við gerðum vel og skoruðum tvö mörk og ég hefði ekki getað beðið um meira á erfiðum útivelli,“ sagði Ágúst.

Í byrjunarliði Breiðabliks voru þrír leikmenn sem allir eru nýkomnir til félagsins. Var aldrei spurning um að láta alla nýju leikmennina byrja leikinn?

„Við erum búnir að vera í svolitum erfiðleikum undanfarið í æfingaleikjum og mér fannst það réttast að koma þeim inn. Þeir voru ferskir og það var fínt fyrir hópinn að fá þá inn í leikinn. Ég get ekki beðið um meira.“

Ágúst segir að bakvörðurinn Jonathan Hendrickx sé líklegast á förum frá félaginu. 

„Hendrickx mun líklegast fara nú í glugganum til síns heimalands, Belgíu. Þar er félag sem vill fá hann. Það er ekkert því til fyrirstöðu að hann fari þangað. Við erum að skoða styrkingar í hans stað. Jonathan er frábær leikmaður þannig að við finnum góðan mann fyrir hann. En við eigum líka menn í okkar röðum sem geta fyllt hans skarð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert