Ellefu úr síðasta Kópavogsslag fyrir ellefu árum

Hörður Árnason og Kristinn Steindórsson í leik HK og Breiðabliks …
Hörður Árnason og Kristinn Steindórsson í leik HK og Breiðabliks fyrir ellefu árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar Kópavogsfélögin HK og Breiðablik mættust síðast í úrvalsdeild karla í knattspyrnu fyrir ellefu árum síðan voru ellefu leikmenn sem nú spila í úrvalsdeildinni þátttakendur í leiknum. Liðin eigast við í dag í Kórnum í fyrsta leik 2. umferðar Pepsi Max-deildar karla og verður flautað til leiks klukkan 16.

Liðin áttust  við í lokaumferð deildarinnar á Kópavogsvelli 27. september 2008. HK féll í umferðinni á undan en Blikar voru á lygnum sjó um miðja deild.

HK vann leikinn 2:1 eftir að hafa komist í 2:0 þar sem Hörður Már Magnússon og Aaron Palomares skoruðu mörk HK í fyrri hálfleik en Marel Baldvinsson minnkaði muninn fyrir Blika rétt fyrir leikslok.

Með HK í þessum leik léku fjórir leikmenn sem spila í úrvalsdeildinni í dag. Tveir þeirra eru í leikmannahópi HK í dag, Hörður Árnason og Hafsteinn Briem, en Hafsteinn er reyndar ekki leikfær ennþá eftir að hafa slitið krossband í hné síðasta vor.

Hinir tveir eru báðir í liði Breiðabliks í dag, markvörðurinn og fyrirliðinn Gunnleifur Gunnleifsson, sem þá var fyrirliði HK, og miðvörðurinn Damir Muminovic sem spilaði, átján ára gamall, 16 leiki með HK í deildinni þetta ár.

Í liði Breiðabliks þennan septemberdag fyrir ellefu árum voru sjö leikmenn sem nú spila í deildinni en enginn þeirra er þó með Kópavogsliðinu í dag. Það eru Arnór Sveinn Aðalsteinsson (KR), Steinþór Freyr Þorsteinsson (KA), Kristinn Steindórsson (FH), Kristinn Jónsson (KR), Guðmann Þórisson (FH), Finnur Orri Margeirsson (KR) og Guðmundur Kristjánsson (FH).

Til viðbótar voru þrír núverandi atvinnumenn og landsliðsmenn þátttakendur í þessum leik árið 2008. Alfreð Finnbogason og Jóhann Berg Guðmundsson voru í liði Breiðabliks og Rúnar Már Sigurjónsson var í liði HK.

Breiðablik mætir til leiks í dag með þrjú stig eftir að hafa unnið Grindavík 2:0 á útivelli í fyrstu umferð deildarinnar. HK er hinsvegar án stiga eftir 2:0 ósigur gegn FH í Kaplakrika sama dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert