Þá lullaði ég bara fram í teiginn

Viktor Örn Margeirsson jafnaði á síðustu mínútu í uppbótartíma.
Viktor Örn Margeirsson jafnaði á síðustu mínútu í uppbótartíma. Ljósmynd/Ómar

Bakvörðurinn Viktor Örn Margeirsson var bjargvættur Breiðabliks gegn HK í Kópavogsslagnum í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í Kórnum í dag og var ánægður með að hafa bjargað stigi úr leik þar sem óvæntur ósigur blasti við liðinu þegar komið var fram á lokamínúturnar.

Viktor jafnaði metin í 2:2 á síðustu mínútu í uppbótartíma en Blikar voru 2:0 undir þegar 88 mínútur voru liðnar af leiknum.

„Við fengum aukaspyrnu á okkar vítateig og keyrðum hratt upp völlinn. Fengum innkast og þá lullaði ég bara fram í vítateig. Við vorum að tapa og það var eins gott að koma sér inní teiginn og reyna að gera eitthvað. Það heppnaðist í dag. Ég held að það hafi verið Kolbeinn sem gaf boltann fyrir markið og ég náði að komast í hann á nærstönginni og flikka honum í fjærhornið. Þetta var heldur betur sætt," sagði Viktor við mbl.is eftir leikinn en þessi 24 ára gamli varnarmaður skoraði þar sitt þriðja mark í 48 leikjum í efstu deild.

„Það var geggjað að ná að skora og kroppa eitt stig á lokamínútunum. Það hefði verið betra ef þetta hefði verið sigurmarkið en úr því sem komið var þá tökum við stigið," sagði Viktor sem þekkir vel til í efri byggðum Kópavogs eftir að hafa leikið með HK sem lánsmaður keppnistímabilið 2014.

Hann var sammála því að Blikar hefðu ekki náð sér á strik fyrr en undir lokin en kvaðst aðspurður ekki trúa því að um vanmat hefði verið að ræða gagnvart nýliðunum og nágrönnunum.

„Við vorum drullulélegir mest allan leikinn. Við vorum langt undir getu. Nei, ég trúi því ekki að það hafi verið um vanmat að ræða. Ég trúi ekki öðru en allir hafi verið vel gíraðir fyrir þennan leik. Við vorum að mæta HK í deildinni og það væri lélegt ef menn væru ekki gíraðir fyrir það.

Ég get bara talað fyrir sjálfan mig en ég gat ekki skynjað neitt annað af stemningunni í klefanum fyrir leik en við værum tilbúnir. En það var eitthvað. Menn voru greinilega ekki alveg á tánum. Við vorum undir í baráttunni í dag og verðum að gera betur en þetta," sagði Viktor.

Þið virtust í vandræðum nánast allan tímann og fenguð lítið af færum þar til í lokin.

Já, í raun, náðum ekki að opna þá neitt. En þeir voru góðir í dag, eru með gott lið, voru þéttir fyrir framan teiginn sig og höfðu betur í baráttu um alla lausa bolta.

En það hlýtur að vera gott að vera 2:0 undir eftir 88 mínútur og ná samt í stig?

„Já, það sýnir þó allavega ákveðinn karakter og hjálpar okkur vonandi í framhaldinu," sagði Viktor Örn Margeirsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka