Viktor bjargaði Blikum á ögurstundu

HK-ingurinn Atli Arnarson sækir á Guðjón Pétur Lýðsson og Andra …
HK-ingurinn Atli Arnarson sækir á Guðjón Pétur Lýðsson og Andra Rafn Yeoman úr Breiðabliki í Kórnum í dag. mbl.is/Hari

Viktor Örn Margeirsson tryggði Breiðabliki jafntefli gegn HK, 2:2, með marki á síðustu mínútu í uppbótartíma þegar Kópavogsliðin mættust í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í Kórnum í dag.

HK var 2:0 yfir þar til á 89. mínútu þegar Thomas Mikkelsen náði að minnka muninn og óhætt að segja að nýliðarnir hafi misst tvö stig úr höndunum á ótrúlegan hátt.

Blikar eru því komnir með 4 stig eftir tvær umferðir en HK er með eitt stig.

HK-ingar mættu frískari til leiks og voru sterkari aðilinn framan af fyrri hálfleiknum. Tvívegis munaði litlu að þeir kæmust yfir, sérstaklega í fyrra skiptið á 13. mínútu þegar Björn Berg Bryde átti hörkuskalla af markteig eftir hornspyrnu en Gunnleifur Gunnleifsson í marki Blika varði glæsilega.

Þremur mínútum síðar brunuðu HK-ingar upp vinstra megin og Bjarni Gunnarsson renndi boltanum út á Arnþór Ara Atlason sem var í góðu færi í miðjum vítateig en skaut yfir mark Blika.

Á 35. mínútu slapp Emil Atlason innfyrir vörn Blika eftir langa sendingu Arnars Freys Ólafssonar markvarðar en Elfar Freyr Helgason náði að stöðva hann með frábærum varnarleik á allra síðustu stundu.

Blikar fengu sitt besta færi á 41. mínútu þegar Arnar Freyr markvörður HK missti af boltanum eftir aukaspyrnu frá hægri. Höskuldur Gunnlaugsson skallaði af stuttu færi en Birkir Valur Jónsson var kominn á marklínuna og skallaði boltann í burtu.

Staðan var því 0:0 í hálfleik en það breyttist heldur betur á upphafsmínútum síðari hálfleiks.

Eftir aðeins 40 sekúndur skoraði Ásgeir Marteinsson fyrir HK með skoti rétt utan vítateigs í vinstra hornið eftir langt innkast frá hægri og sendingu Bjarna Gunnarssonar, 1:0.

Á 50. mínútu var HK komið í 2:0. Ásgeir tók hornspyrnu frá vinstri og sendi inná markteig þar sem Björn Berg gnæfði yfir alla og skoraði með skalla í hægra hornið.

Litlu munaði að Björn Berg skoraði þriðja mark HK á 54. mínútu þegar Blikar björguðu á marklínunni eftir skalla hans.

Breiðablik sótti meira eftir því sem leið á hálfleikinn en gekk illa að skapa sér færi gegn vel skipulögðum varnarleik HK. Alexander Helgi Sigurðarson átti ágæta tilraun úr aukaspyrnu á 66. mínútu en skaut rétt yfir mark HK.

Á 89. mínútu náði Thomas Mikkelsen að minnka muninn fyrir Blika með góðu skoti vinstra megin úr vítateignum, 2:1, eftir að Alexander Helgi Sigurðarson skallaði boltann til hans.

Í lok uppbótartímans, þegar allt virtist stefna í að HK héldi fengnum hlut skoraði Viktor Örn jöfnunarmarkið þegar hann stakk sér fram og skallaði boltann í mark HK eftir sendingu Kolbeins Þórðarsonar frá vinstri, 2:2.

Óhætt er að segja að Blikar hafi sloppið fyrir horn, eftir að hafa lent 2:0 undir og átt í mestu vandræðum með að skapa sér marktækifæri allan tímann. Að sama skapi var klaufalegt af HK-ingum að missa tvö stig úr höndunum í blálokin á leiknum eftir að hafa haft góð tök á honum lengst af.

HK 2:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Þetta verða áhugaverðar lokamínútur!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka