Viktor Jónsson, framherji ÍA, kinnbeinsbrotnaði í leiknum gegn Fylkismönnum þegar liðin áttust við í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu í Árbænum í gærkvöld.
Viktor lenti í harkalegu samstuði við Ásgeir Eyþórsson undir lok leiksins. Hann lá óvígur eftir og var fluttur í sjúkrabíl á sjúkrahús þar sem hugað var að meiðslum hans.
„Viktor fór í myndatöku í gærkvöld og það kom í ljós að hann er kinnbeinsbrotinn. Við heyrum betur í læknum í dag. Þetta var mikið högg sem hann fékk og hann hefur sjálfsagt fengið vægan heilahristing. Viktor er grjótharður og hann verður fljótur að jafna sig. Væntanlega missir hann af næsta leik en ég geri ráð fyrir því að það verði útbúin andlitsgríma sem hann getur þá spilað með í framhaldinu,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari Skagamanna við mbl.is í morgun.
Skagamenn, sem eru með fjögur stig eftir tvær umferðir, sækja Íslandsmeistara Vals heim á laugardaginn í 3. umferð Pepsi Max-deildarinnar.