„Þetta var frábær leikur af okkar hálfu í dag og við uppskárum sanngjarnan sigur,“ sagði Kolbeinn Þórðarson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 3:1-sigur liðsins gegn Víkingi í 3. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld.
„Það gekk allt upp hjá okkur sem við lögðum upp með fyrir leikinn í dag og þetta var fyrst og fremst frábær liðsframmistaða hjá öllu liðinu. Við ákváðum að mæta mjög vel gíraðir í leikinn eftir jafnteflið á móti HK. Við áttum góðar fimm mínútur í þeim leik sem við ákváðum að taka með okkur inn í leikinn í kvöld og við lærðum af mistökunum sem við gerðum í Kórnum. Við vorum á fullu, allan tímann og uppskárum sanngjarnan sigur.“
Kolbeinn hefur byrjað fyrstu tvo leiki Blika í sumar á bekknum en hann nýtti svo sannarlega tækifæri sitt í byrjunarliðinu í dag.
„Maður reynir alltaf að nýta þau tækifæri sem maður fær og það tókst svo sannarlega í dag. Að sama skapi er mikil samkeppni um allar stöður hjá Breiðabliki og það er ekki gengið að því vísu að vera í byrjunarliðinu í hverjum leik.“
Blikar eru í efsta sæti deildarinnar með 7 stig eins og sakir standa og Kolbeinn er ánægður með gang mála í Kópavoginum.
„Þetta er fínt, við erum á góðu rólu og ég myndi segja að við séum á pari. Okkur líður vel og það er gaman að spila fótbolta,“ sagði Kolbeinn Þórðarson í samtali við mbl.is.