Sannfærandi hjá Blikum gegn Víkingi

Kolbeinn Þórðarson lætur vaða að marki Víkings í kvöld.
Kolbeinn Þórðarson lætur vaða að marki Víkings í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Breiðablik tyllti sér á toppinn í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, þegar liðið vann 3:1-sigur gegn Víkingi Reykjavík í 3. umferð deildarinnar á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld. Blikar ákváðu að færa heimaleik sinn í Árbæinn þar sem að verið er að leggja gervigras á Kópavogsvöll og var völlurinn ekki tilbúinn fyrir leik kvöldsins.

Blikar byrjuðu leikinn af miklum krafti og pressuðu gestina úr Víkinni stíft á upphafs mínútunum. Kolbeinn Þórðarson kom Breiðabliki yfir strax á 11. mínútu með frábærum einleik. Hann fór illa með miðjumenn Víkinga, lék í átt að vítateig Víkinga og lét vaða rétt fyrir utan teiginn og boltinn söng í nærhorninu. Víkingar voru fljótir að svara en Nikolaj Hanesen jafnaði metin, mínútu síðar, með laglegu skoti úr teignum eftir sendingu Rick ten Voorde og staðan orðin 1:1. Leikurinn róaðist mikið eftir þetta, Blikar voru meira með boltann og Víkingar vörðust aftarlega á vellinum. Kolbeinn Þórðarson var aftur á ferðinni á 42. mínútu þegar Höskuldur Gunnlaugsson átti frábæra sendingu fyrir markið á Kolbein sem kláraði af stuttu færi úr teignum og staðan því 2:1 í hálfleik, Breiðabliki í vil.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og fengu nokkur góð færi til þess að bæta við mörkum. Víkingar lágu til baka og gekk illa að byggja upp spil en Kópavogsbúar voru duglegir að pressa þá í hvert einasta skipti sem þeir fengu boltann. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði þriðja mark Breiðabliks á 65. mínútu með skalla úr teignum eftir frábæra aukaspyrnu Guðjóns Péturs Lýðssonar og staðan orðin 3:1. Atli Hrafn Andrason fékk frábært færi til þess að minnka muninn fyrir Víkinga, mínútu síðar, en frír skalli hans úr markteignum fór hárfínt framhjá.

Blikar fengu nokkur frábær færi til þess að bæta við mörkum en inn vildi boltinn ekki og Breiðablik fagnaði öruggum og sanngjörnum sigri. Þetta var annars sigur Breiðabliks í Pepsi Max-deildinni í sumar en liðið er komið í efsta sæti deildarinnar í 7 stig og er með jafn mörg stig og FH en bæði lið hafa leikið þrjá leiki. Víkingar eru í áttunda sætinu með 2 stig en liðið hefur gert tvö jafntefli í sumar og tapað einum leik.

Breiðablik 3:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er að minnsta kosti þrjár mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka