„Gefur okkur ansi mikið“

Árni Snær Ólafsson markvörður ÍA tilbúinn til að grípa boltann …
Árni Snær Ólafsson markvörður ÍA tilbúinn til að grípa boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari Skagamanna, var hinn rólegasti þegar mbl.is tók hann tali eftir sigur ÍA á Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda í Pepsí Max deild karla í kvöld. 

Skagamenn unnu 2:1 og urðu fyrstir til að vinna Val á Hlíðarenda á Íslandsmótinu síðan Blikar gerðu það 15. september 2016. Valur hafði spilað 24 leiki í deildinni á heimavelli án taps þegar kom að leiknum í kvöld. Er þessi sigur þýðingarmeiri en venjuleg þrjú stig fyrir ÍA?

„Þetta gefur okkur náttúrlega ansi mikið en það er hörktrú í hópnum að við getum unnið alla. Ég hafði reyndar ekki hugmynd um að tölfræðin væri þessi sem þú varst að segja mér á heimavelli Íslandsmeistaranna. Auðvitað er frábært að koma hingað og sækja þennan sigur. Það besta við þetta er að mér fannst sigurinn vera verðskuldaður,“ sagði Jóhannes þegar mbl.is spjallaði við hann á Hlíðarenda. 

Bæði mörk ÍA komu eftir hornspyrnur frá Tryggva Hrafni Haraldssyni. Auk þess eru löng innköst Stefáns Teits Þórðarsonar greinilega hættuleg en hann grýtir boltanum inn á miðjan vítateig. Er búið að leggja mikla vinnu í að æfa þessi atriði? 

„Við erum það öflugir að við verðum bara að nýta okkur þetta. Við erum með virkilega sterka leikmenn og sterka persónuleika sem eru tilbúnir til að ráðast á boltann í báðum vítateigum. Við erum einnig að verjast föstum leikatriðum vel. Við sýndum í dag að við getum einnig nýtt okkur þetta sem vopn í sókninni. Við erum stórhættulegir í þessum atriðum og virkilega grimmir. Við reynum að byggja ofan á þetta og þetta mun nýtast okkur áfram.“

ÍA verður án Viktors Jónssonar næstu vikurnar vegna meiðsla. Hefur það mikil áhrif á spilamennsku liðsins? „Auðvitað munum við sakna Viktors, það er ekki nokkur spurning. Hann er frábær náungi og hefur leitt línuna vel hjá okkur. Hann er ekta nía sem er frábært að hafa. Hann gerði virkilega vel í báðum leikjunum sem hann spilaði og við munum sakna hans. Við þurfum samt sem áður að gefa honum þann tíma sem hann þarf til að jafna sig. Þegar hann kemur til baka munum við taka fagnandi á móti honum og hann mun verða frábær fyrir okkur í framhaldinu,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson ennfremur við mbl.is. 

Jóhannes Karl Guðjónsson og hans menn hafa náð í 7 …
Jóhannes Karl Guðjónsson og hans menn hafa náð í 7 stig í upphafi móts. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert