Fyrsti sigur Selfoss kom gegn HK/Víkingi

Eygló Þorsteinsdóttir úr HK/Víkingi og Magdalena Anna Reimus úr Selfossi …
Eygló Þorsteinsdóttir úr HK/Víkingi og Magdalena Anna Reimus úr Selfossi í baráttu í Kórnum í kvöld og Grace Rapp fylgist með. mbl.is/Kristinn

Selfoss vann sinn fyrsta leik í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, þegar liðið sótti HK/Víking heim í 3. umferð deildarinnar í Kórnum í kvöld. Leiknum lauk með 1:0-sigri Selfyssinga en það var Grace Rapp sem skoraði sigurmarkið á 80. mínútu.

HK/Víkingur átti fyrstu marktilraun leiksins þegar Brynhildur Vala Björnsdóttir átti skot sem Kelsey Wys var í litlum vandræðum með í marki Selfyssinga. Á 15. mínútu fékk Darian Powell, framherji Selfyssinga, algjört dauðafæri þegar Magdalena Reimus átti frábæra fyrirgjöf frá vinstri en Powell setti boltann hátt yfir markið úr markteignum.

Magdalena Reimus fékk svo frábært færi, þremur mínútum síðar, þegar hún hirti eigið frákast en Halla í marki HK/Víkings varði meistaralega frá henni af stuttu færi. Bæði lið skiptust á að sækja það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, án þess þó að skapa sér afgerandi marktækifæri, og staðan í hálfleik markalaus.

Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og strax á 54. mínútu átti Magdalena Reimus aukaspyrnu af 30 metra færi sem hafnaði í þverslánni. Grace Rapp fékk sannkallað dauðafæri á 63. mínútu þegar Magdalena sendi boltann fyrir markið en Rapp þrumaði boltanum í þverslána af stuttu færi.

Magdalena slapp ein í gegn á 79. mínútu en skot hennar fór fram hjá markinu, það kom ekki að sök, því mínútu síðar komst Selfoss yfir með marki frá Grace Rapp. Barbára Sól átti þá frábæra rispu upp hægri kantinn og sendi fyrir markið á Grace sem gerði engin mistök og setti boltann þéttingsfast í nærhornið og staðan orðin 1:0.

HK/Víkingsstúlkur reyndu hvað þær gátu að jafna metin en Anna María Bergþórsdóttir slapp ein í gegn á 85. mínútu en Halla í marki HK/Víkings varði mjög vel frá henni. HK/Víkingur komst næst því að skora í leiknum á 88. mínútu þegar Brynja Valgeirsdóttir ætlaði að hreinsa frá marki. Boltinn fór af Esther Rós og í stöngina og þaðan í hendurnar á Kelsey Wys. Selfyssingar héldu boltanum vel undir restina og fögnuðu sigri í leikslok.

Selfoss fer með sigrinum upp í áttunda sæti deildarinnar í 3 stig, og upp fyrir KR og Keflavík, sem eru án stiga. HK/Víkingur er áfram í sjötta sæti deildarinnar með 3 stig líkt og ÍBV.

HK/Víkingur 0:1 Selfoss opna loka
90. mín. Isabella Eva Aradóttir (HK/Víkingur) á skalla sem er varinn DAUÐAFÆRI! Isabella nær skalla á markið eftir fast leikatriði en Wys ver frá henni. Var vel staðsett þarna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert