Styttist í lykilmenn hjá meisturunum

Sigurður Egill Lárusson hefur verið lykilmaður í liði Vals undanfarin …
Sigurður Egill Lárusson hefur verið lykilmaður í liði Vals undanfarin ár. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Egill Lárusson, sóknarmaður Íslandsmeistara Vals, er að ná sér af meiðslum og ætti að vera klár í slaginn þegar liðið mætir Fylki í 3. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á fimmtudaginn næstkomandi. Þetta staðfesti Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Valsmanna, í samtali við mbl.is í dag.

Sigurður Egill hefur verið algjör lykilmaður í liði Vals á undanförnum árum en hann hefur aðeins komið við sögu í einum leik með Valsmönnum á tímabilinu og það var gegn Stjörnunni í Meistarakeppni KSÍ, 18. apríl, þar sem honum var skipt af velli í fyrri hálfleik. Þá er Kristinn Ingi Halldórsson einnig að snúa aftur í lið Valsmanna og Birnir Snær Ingason er heill heilsu og tilbúinn að byrja sinn fyrsta leik fyrir Íslandsmeistarana.

Miðjumaðurinn Kristinn Freyr Sigurðsson hefur ekkert spilað með Valsmönnum á þessari leiktíð en Sigurbjörn vonast til þess að hann verði klár í slaginn um miðjan júní. Valsmenn hafa saknað hans mikið enda einn mest skapandi leikmaður liðsins. Daninn Emil Lyng meiddist aftan í læri í leik gegn ÍA í annarri umferðinni og á Sigurbjörn von á því að Lyng verði frá næstu fjórar til sex vikurnar.

Íslandsmeistarar Vals hafa ekki farið vel af stað í sumar en liðið féll úr leik í bikarkeppninni eftir 2:1-tap gegn FH á Hlíðarenda í 32-liða úrslitum. Þá sitja Valsmenn í tíunda sæti deildarinnar með einungis eitt stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar og bíður liðið enn þá eftir sínum fyrsta sigri í deildinni í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert