Þetta var ringulreið

Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks.
Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var gríðarlega erfitt, fyrir mig og fyrir leikmennina á vellinum. Þetta var ringulreið hérna og KA-menn héldu okkur alveg inni í teignum okkar. En við vörðumst gríðarlega vel,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, eftir 1:0 sigur á KA á Akureyri í Pepsi-Max-deild karla í knattspyrnu á Akureyri í kvöld. En Blikar þurftu að hafa virkilega fyrir sigrinum og lágu lengi í vörn undir lok leiks.

„Þeir herjuðu á okkur og við náðum ekki alveg dampi en ótrúlega sætt að fá þrjú stig. Þetta er gríðarlega erfiður útivöllur og ég sé ekki mörg lið koma hérna og taka eitthvað.“

Eina mark leiksins kom úr vítaspyrnu, hvað fannst Ágústi um vítaspyrnudóminn?

„Ég í raun sé það ekki almennilega, dómarinn dæmir það. Sem er gott fyrir okkur og vont fyrir KA-menn.“

„Þeir börðust eins og ljón um allan völl og voru að vinna okkur í návígunum úti á velli en áttu í erfiðleikum með að brjóta okkur niður þar sem við vorum sterkir til baka með þriggja hafsenta kerfi.“

Jonathan Hendrix var ekki með í kvöld. Spurður um stöðu hans sagði Ágúst:

„Það er misskilningur að hann sé á förum núna. Það er belgískt lið sem hefur áhuga á honum og við höfum ákveðið að hleypa honum þangað í alvöruatvinnumennsku. Hann er veikur núna og við ákváðum að  fara ekki með hann í þetta ferðalag en hann verður vonandi klár á sunnudag á móti Skagamönnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert