Flautumark í toppslagnum í Kópavogi

Arnar Már Guðjónsson og Höskuldur Gunnlaugsson eigast hér við á …
Arnar Már Guðjónsson og Höskuldur Gunnlaugsson eigast hér við á Kópavogsvellinum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varnarmaðurinn Einar Logi Einarsson reyndist hetja Skagamanna þegar liðið sótti Breiðablik heim í toppslag 5. umferðar úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Kópavogsvelli í kvöld. Leiknum lauk með 1:0-sigri ÍA en Einar Logi skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma.

Leikurinn fór fjörlega af stað og það voru Skagamenn sem voru hættulegri aðilinn. Gonzalo Zamorano fékk sannkallað dauðafæri strax á 6. mínútu þegar hann fékk frían skalla inn í markteig en á einhvern ótrúlegan hátt skallaði hann beint í átt að Gunnleifi Gunnleifssyni í marki Blika og Gunnleifur náði að setja hönd í boltann og verja. Höskuldur Gunnlaugsson átti fínt skot að marki Skagamanna, fimm mínútum síðar, en Árni Snær í marki ÍA varði vel frá honum og bjargaði í horn. Skagamenn pressuðu Blika stíft og Kópavogsbúar töpuðu boltanum trekk í trekk á eigin vallarhelmingi. Þrátt fyrir nokkrar álitlegar sóknir tókst ÍA ekki að nýta sér kæruleysi Blika og staðan í hálfleik markalaus.

Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og Arnar Már Björgvinsson fékk flott færi til þess að koma ÍA yfir eftir fast leikatriði en Gunnleifur varði skalla hans af markteig. Tryggvi Hrafn átti skot í þverslá á 56. mínútu, beint úr aukaspyrnu, en á 63. mínútu skoruðu Blikar mark sem var réttilega dæmt af vegna brots á Árna Snæ. Það var ekki fyrr en á 80. mínútu sem Skagamönnum tókst að opna vörn Blika en þá slapp Tryggvi Hrafn einn í gegn en Gunnleifur kom út á móti og varði meistaralega frá honum. Eftir þetta dró mikið af báðum liðum og leikurinn fjaraði hægt og rólega út og það stefndi allt í að liðin myndu skipta mér sér stigunum.

Á annarri mínútu uppbótartíma fengu Skagamenn hornspyrnu sem Tryggvi Hrafn Haraldsson tók. Blikar skölluðu frá, Stefán Teitur Þórðarson hirti frákastið og átti skot að marki, sem Einar Logi Einarsson setti tána í og þaðan fór boltinn í netið og Skagamenn fögnuðu sigri á dramatískan hátt. Breiðablik er áfram í öðru sæti deildarinnar með 10 stig eftir fyrstu fimm umferðirnar en Skagamenn sitja einir á toppnum með 13 stig.

Breiðablik 0:1 ÍA opna loka
90. mín. ÍA fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka