Hólmfríður Magnúsdóttir var bjargvættur Selfyssinga í dramatískum sigri á Keflavík í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Hún skoraði sigurmark Selfoss á 90. mínútu í 3:2 sigri.
Selfoss skoraði í fyrstu sókn þegar Barbára Gísladóttir lyfti boltanum skemmtilega í netið eftir sendingu frá Evu Lind Elíasdóttur.
Eftir það tóku Keflvíkingar leikinn algjörlega yfir og þær skoruðu tvívegis áður en flautað var til hálfleiks. Sophie Groff skoraði á 29. mínútu eftir slæm mistök í vörn Selfoss og fimm mínútum síðar skoraði Sveindís Jane Jónsdóttir frábært mark eftir sendingu frá Anitu Lind Daníelsdóttur.
Seinni hálfleikur var mun jafnari og Selfyssingar komust inn í leikinn. Vendipunkturinn í leiknum var innkoma Hólmfríðar Magnúsdóttur á 66. mínútu. Hún var aðeins fjórar mínútur að leggja upp mark fyrir Grace Rapp og eftir það var leikurinn í járnum.
Sigurmarkið lá ekki í loftinu en á 90. mínútu fengu Selfyssingar hornspyrnu sem Magdalena Reimus sendi beint á kollinn á Hólmfríði sem stangaði boltann í netið.
Keflavík er því enn í botnsætinu án stiga en Selfyssingar eru komnir upp í 6. sæti með 6 stig.