„Fyrri hálfleikurinn var mjög lélegur hjá okkur. Við bara mættum ekki í leikinn. Þær voru að vinna fyrsta og annan bolta og það var eins gott að við komum brjálaðar út í seinni hálfleikinn,“ sagði Hólmfríður Magnúsdóttir, hetja Selfoss í 3:2 sigri á Keflavík í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu á Selfossi í kvöld.
„Við höfum ekkert efni á því að mæta svona inn í leiki í þessari deild. Við erum í góðu formi en við þurftum bara að herða okkur eftir fyrri hálfleikinn. Það er ekkert betra að vinna þetta bara á síðustu mínútunni.“
Hólmfríður kom inn á sem varamaður á 66. mínútu og fjórum mínútum síðar lagði hún upp jöfnunarmark fyrir Grace Rapp, 2:2. Hún skallaði svo hornspyrnu Magdalenu Reimus í netið á 90. mínútu og tryggði Selfyssingum sinn annan sigur í sumar.
„Ég er mjög sátt við minn leik, ég er bara á þriðju viku á undirbúningstímabili,“ sagði Hólmfríður hlæjandi. „Hver vika vinnur með mér á meðan líkaminn þolir þetta og ég næ að auka álagið jafnt og þétt. Þetta er bara plús og gott fyrir liðið. Ég er ánægð með markið og ef ég á að vera alveg hreinskilin þá er ég búin að vera að gera þetta á æfingasvæðinu. Ég fór ekkert í ákveðið hlaup, ég bara ætlaði mér að taka boltann og mætti á réttan stað á réttum tíma.“