KR fagnaði sigri og Sölvi sá rautt

Óskar Örn Hauksson sækir að Sölva Geir Ottesen í dag.
Óskar Örn Hauksson sækir að Sölva Geir Ottesen í dag. mbl.is/Árni Sæberg

KR vann 1:0-sigur á Víkingi R. í Laugardalnum í kvöld í 6. umferð úrvalsdeildar karla í fótbolta. Sigurmarkið kom snemma leiks en Víkingar voru manni færri síðasta korterið í leiknum.

Víkingar bíða ennþá eftir sínum fyrsta sigri í deildinni en liðið er í ellefta sæti með 3 stig á meðan KR er með 11 stig, tveimur stigum á eftir toppliði ÍA sem á leik til góða.

Það hafði lítið sem ekkert gerst í leiknum þegar Óskar Örn Hauksson kom KR yfir strax á 5. mínútu. Kennie Chopart átti góðan sprett fram hægri kantinn og kom boltanum á Tobias Thomsen. Thomsen sótti að markinu en boltinn skoppaði af varnarmanni til hliðar á Óskar sem skoraði með hnitmiðuðu skoti utarlega úr teignum.

Talsvert jafnræði var annars með liðunum í fyrri hálfleiknum og lítið um færi. Víkingar komust næst því að skora eftir hornspyrnur Loga Tómassonar en skallar frá Sölva Geir Ottesen og Nikolaj Hansen fóru ekki á markið. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks átti Óskar svo hættulegt skot fyrir KR en Þórður Ingason varði í horn.

Víkingar voru meira með boltann í seinni hálfleik en KR-ingar reyndu að beita skyndisóknum. Hins vegar var lítið um færi þar til að Tobias Thomsen átti tvö hættuleg skot á 70. mínútu. Víkingar björguðu á marklínu í seinna skiptið.

Á 77. mínútu misstu Víkingar Sölva Geir Ottesen af velli með rautt spjald eftir baráttu inni í vítateig KR. Pálmi Rafn Pálmason lá eftir í teignum og virðist Sölvi óvart hafa slæmt handleggnum í höfuð Pálma.

Víkingum gekk illa að skapa sér færi til að jafna metin þrátt fyrir að reyna sitt besta á lokakaflanum og KR-ingar fögnuðu að lokum eins marks sigri.

Víkingur R. 0:1 KR opna loka
90. mín. Aftur jafnt í liðum þegar Finnur Orri haltrar af velli. Fimm mínútur eftir af uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert