Fara Breiðablik og FH upp að hlið ÍA?

ÍA vann sterkan sigur á Breiðabliki í síðustu umferð og …
ÍA vann sterkan sigur á Breiðabliki í síðustu umferð og er á toppnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír leikir fara fram í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Þrjú af fjórum efstu liðum deildarinnar verða í eldlínunni og gæti staðan á toppnum því breyst með kvöldinu. 

Topplið ÍA, sem er nýliði í deildinni, mætir Stjörnunni á heimavelli í fyrsta leiknum kl. 17. Skagamenn hafa komið skemmtilega á óvart í sumar og er liðið búið að vinna fjóra af fyrstu fimm leikjum sínum. 

Fyrir vikið er ÍA með 13 stig, tveimur stigum meira en KR, sem vann Víking R. í gær. Stjarnan er hins vegar í sjöunda sæti með átta stig eftir vonbrigðatap fyrir KA í síðustu umferð. 

FH og Breiðablik eru bæði með tíu stig og geta því jafnað ÍA á stigum, fari svo að Skagamenn tapi. Vinni ÍA hins vegar og FH og Breiðablik tapa, verður ÍA með fimm stiga forskot á toppnum. 

Breiðablik mætir Íslandsmeisturum Vals á útivelli kl. 19:15. Valsmenn eru búnir að valda miklum vonbrigðum og aðeins unnið einn leik í allt sumar, á meðan Breiðablik vill svara fyrir tap gegn ÍA í síðustu umferð. 

FH er einnig búið að tapa fyrir ÍA, en svaraði með 3:2-sigri á Val í síðustu umferð. FH mætir Fylki í Árbænum, einnig kl. 19:15. Fylkir byrjaði á sigri gegn ÍBV en hefur síðan þá leikið fjóra leiki í röð án sigurs og tapað síðustu tveimur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka