Andri Rafn Yeoman reyndist hetja Breiðabliks þegar liðið sótti Íslandsmeistara Vals heim í 6. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-völlinn á Hlíðarenda í kvöld. Leiknum lauk með 1:0-sigri Kópavogsbúa og skoraði Andri eina mark leiksins á 76. mínútu.
Bæði lið mættu varkár til leiks en eftir tíu mínútna leik átti Andri Rafn Yeoman fyrstu marktilraun leiksins þegar hann lét vaða á markið, innan teigs, en boltinn fór rétt framhjá markinu. Sigurður Egill kom boltanum í netið fyrir Valsmenn, mínútu síðar, en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Eftir þetta tóku Blikar öll völd á vellinum og á 17. mínútu átti Þórir Guðjónsson skalla á nærstönginni sem Hannes Þór Halldórsson í marki Valsmanna varði frábærlega. Á 20. mínútu slapp Arnar Sveinn Geirsson í gegn en skot hans úr þröngu færi fór í stöngina og út. Þórir Guðjónsson slapp tvívegis einn í gegn um miðbik fyrri hálfleiks en Hannes Þór gerði mjög vel og lokaði vel á framherjann. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Sigurður Egill aftur fyrir Valsmenn en aftur var markið dæmt af vegna rangstöðu og staðan því markalaus í hálfleik.
Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og fengu nokkrar álitlegar sóknir í upphafi síðari hálfleiks. Jonathan Hendrickx átti fínt skot sem fór rétt framhjá markinu og Þórir Guðjónsson átti flottan sprett upp völlinn en skot hans endaði í höndum Hannesar í marki Vals. Andri Adolphsson fékk fínt færi til að koma Valsmönnum yfir á 60. mínútu en skot hans af stuttu færi úr teignum hitti ekki rammann. Á 76. mínútu gerði Orri Sigurður Ómarsson sig sekan um slæm mistök þegar hann ætlaði að hreinsa frá marki en hitti ekki boltann. Höskuldur Gunnlaugsson hirti knöttinn, sendi hann fyrir markið á Brynjólf Darra Willumsson sem átti skot að marki. Hannes varði vel frá honum en frákastið hrökk til Andra Rafns Yeoman sem gerði engin mistök og kláraði af miklu öryggi fyrir opnu marki og staðan orðin 1:0.
Hvorugu liðinu tókst að skapa sér afgerandi marktækifæri eftir þetta, þótt Blikar hafi verið líklegra liðið, og í uppbótartíma fékk Kristinn Freyr Sigurðsson að líta rauða spjaldið fyrir ljóta tæklingu aftan í Kolbein Þórðarson. Leikurinn fjaraði út eftir þetta og Blikar fögnuðu verðskulduðum sigri. Valsmenn eru áfram i tíunda sæti deildarinnar með 4 stig eftir fyrstu sex umferðirnar en Blikar skjótast upp í annað sætið og eru með 13 stig, þremur stigum minna en topplið ÍA.