Það var ekki mikið um dýrðir í byrjun leiks á Hlíðarenda í leik Vals og Selfoss í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld. Valsmenn báru sigur úr býtum 4:1 eftir mikla yfirburði í seinni hálfleik.
Valur hefur þar með unnið fimm fyrstu leiki sína í deildinni og er með 15 stig á toppi deildarinnar.
Liðin skiptust á því að halda boltanum í rólegum tempói, hvort liðið í sínu skipulagi og forðast hvort annað. Heimamönnum virtist ekkert liggja á, og það var eins og þeir væru að reyna að þreyta gestina. Smám saman æstust leikar og barningurinn varð meiri, og auðveldara varða að draga fólk úr stöðum.
Valur tók svo yfirhöndina um miðjan hálfleikinn þar sem fyrirgjafir og hálffæri voru allsráðandi. Á meðan var Selfossliðið með allskyns litbrigði af hröðum sóknum. Fyrsta markið leit dagsins ljós eftir eina slíka þegar Barbára Sól tók Elísu á, kom sér í skotstöðu í vítateig á 34. mínútu og gerði sér lítið fyrir og smurði tuðrunni í vinkilinn 0:1.
Á næstu mínútu fengu Valsmenn hornspyrnu og bárust hreyturnar til Elínar Mettu sem kláraði af mikilli festu og yfirvegun. Sterkt að klára færið svona vel, sterk endurkoma Vals, 1:1.
Hálfleikurinn endaði með bombu þegar Elín Metta fékk víti er hún féll eftir viðskipti í vítateig Selfyssinga, vafasamur dómur, en vítið tók hún sjálf og skoraði örugglega 2:1.
Leikurinn var algjör einstefna í seinni hálfleik þar sem Valsarar hafa líklega fengið skipanir um að skipta um gír og bæta í hraðann. Skotin dundu á Selfyssingum sem lágu aftarlega með varnarlínuna sína og virtust missa móðinn fljótlega. Hrikaleg mistök hjá Cassie Lee, þar sem hún hitti ekki boltann þegar hann stefndi á hana í öftustu línu, urðu til þess að Elín Metta fullkomnaði þrennuna á 81.mínútu. Hún tók boltann með sér inn fyrir og þandi markhornið að þolmörkum 3:1.
Guðrún Karítas Sigurðardóttir fékk markafimmu frá Elínu Mettu þegar hún kom inná fyrir hana 84. mínútu, en það tók hana 4 mínútur að skora fjórða og síðasta mark leiksins þegar hún komst ein og óvölduð inn fyrir vörn Selfyssinga. Sanngjarn 4:1 sigur Valsmanna og þær örugglega fegnar að vinna ekki leikinn einungis á vafasömum vítaspyrnudómi.