Sjálfsmark réði úrslitum

KA-maðurinn Daníel Hafsteinsson á Meistaravöllum í dag.
KA-maðurinn Daníel Hafsteinsson á Meistaravöllum í dag. mbl.is/Hari

KR vann KA 1:0 í 7. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu  á Meistaravöllum í dag. Eina markið var sjálfsmark á 67. mínútu en KR-ingar lönduðu sigri þótt þeir væru manni færri megnið af síðari hálfleik. 

KR er með 14 stig og vann sinn þriðja leik í röð í deildinni. KA var í 6. sæti fyrir þessa umferð en staðan skýrist betur í kvöld.

Fyrri hálfleikur var fjörugur í Vesturbænum í dag en liðunum tókst ekki að skora þrátt fyrir fín færi. 

Til tíðinda dró fyrir alvöru á 53. mínútu þegar Kennie Chopart fékk rauða spjaldið hjá Ívari Orra Kristjánssyni dómara leiksins. Chopart fékk tvær áminningar og þar af leiðandi brottvísun. Chopart nældi sér í gult spjald fyrir kjaftbrúk í fyrri hálfleik sem var óþarfi hjá honum þar sem dómurinn skipti litlu máli enda brotið við hliðarlínuna á miðjum vellinum. En Chopart fær mun meiri samúð út af síðara gula spjaldinu. Þá var hann kominn inn í teig og féll eftir að hann komst framhjá KA-manni. Leit út eins og vítaspyrna en Ívar dæmdi ekki og spjaldaði Chopart fyrir leikaraskap. Hér er bara tvennt í stöðunni. Annað hvort frábær dómgæsla hjá Ívari hafi hann haft rétt fyrir sér eða stór mistök þar sem lið fær rautt, leikbann og missir af vítaspyrnu. 

KR-ingum tókst engu að síður að skora eða öllu heldur fór boltinn af KA-manninum Hrannari Steingrímssyni í markið eftir fyrirgjöf Arnþórs Inga Kristinssonar frá á hægri. 

KA-menn reyndu að sækja og settu KR-inga undir pressu í nokkrum tilfellum. Þeir komust hvað næst því að skora þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson átti laglegt skot úr aukaspyrnu á 90. mínútu sem small í þverslánni. 

KR 1:0 KA opna loka
90. mín. KA fær aukaspyrnu af rúmlega 25 metra færi. Skotfæri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert