Blaðamannafundur fyrir leik Íslands og Tyrklands í undankeppni EM karla í fótbolta var haldinn á Laugardalsvelli í dag. Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og þjálfarinn Erik Hamrén sátu þá fyrir svörum.
Eins og mbl.is hefur greint frá voru tyrkneskir stuðningsmenn allt annað en sáttir við móttökurnar sem landsliðið fékk er það lenti í Keflavík í gær.
Við komuna beið þeirra löng bið við öryggishlið og ekki bætti það skap Tyrkjanna að eftir öryggishliðið sést maður ota uppþvottabursta í átt að Emre Belözoglu, líkt og um hljóðnema væri að ræða.
Í kjölfarið varð allt vitlaust á Facebook-síðu KSÍ þar sem stuðningsmenn Tyrkja skrifuðu afar ósmekkleg ummæli. Hamrén vildi ekkert tjá sig um málið á fundinum og Aron Einar gerði það stuttlega.
Eftir fundinn túlkaði Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, svör Aron Einars Gunnarssonar á fundinum yfir á ensku og við það var einn tyrkneskur blaðamaður sérstaklega ósáttur.
„Er ekkert þýtt yfir á tyrknesku?" spurði blaðamaðurinn og Ómar svaraði að ekki væri hefð fyrir því hjá KSÍ. „Er þetta af því við erum Tyrkland?" spurði blaðamaðurinn, mjög æstur í kjölfarið.