Við spilum öðruvísi en Frakkarnir

Erik Hamrén á blaðamannafundi í dag.
Erik Hamrén á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hlakka til leiksins á morgun. Hann er mikilvægur og verður erfiður. Tyrkland hefur byrjað mjög vel og unnið alla þrjá leiki sína og ekki fengið á sig mark. Við ætlum hins vegar að ná í sex stig úr leikjunum við Tyrkland og Albaníu," sagði Erik Hamrén, landsliðsþjálfari karlaliðsins í fótbolta á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í dag. 

Ísland mætir Tyrklandi í undankeppni EM 2020 á heimavelli, en Tyrkir hafa byrjað undankeppnina afar vel og unnið þrjá fyrstu leiki sína. Tyrkland vann glæsilegan 2:0-heimasigur á Frakklandi á laugardag. 

„Ég ber mikla virðingu fyrir tyrkneska liðinu. Við erum hins vegar líka með gott lið og þetta verður spennandi leikur. Ég er spenntur að sjá hvernig gengur hjá okkur. Tyrkir voru flottir á útivelli á móti Albaníu og enn flottari á móti Frökkum," bætti Hamrén við um tyrkneska liðið. 

Hann segir alla leikmenn íslenska liðsins vera með á æfingu í dag og þar á meðal Jóhann Berg Guðmundsson sem er búinn að vera tæpur vegna meiðsla. „Allir eru klárir fyrir æfinguna í dag, en svo sjáum við til hvernig menn verða eftir æfinguna. Þetta var erfiður leikur við Albaníu og við sjáum hvernig standið á mönnum verður," sagði Hamrén. 

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson hefur einnig verið að glíma við meiðsli, en hann er klár í slaginn á móti Tyrklandi. Hann á von á erfiðum leik á móti tyrknesku liði sem spilaði mjög vel á móti Frakklandi. 

„Standið á mér er gott. Mér líður mjög vel og við erum búnir að ná góðum tíma í að koma okkur aftur í gang eftir leikinn við Albaníu. Tyrkirnir líta mjög vel út og þeir voru flottir á móti Frökkum. Þeir hleyptu Frökkunum ekki í þeirra leik. Þeir sátu aftur og það virkaði vel hjá þeim. Við spilum öðruvísi en Frakkarnir og vonandi gengur það upp hjá okkur. Það er uppgangur og meðbyr hjá Tyrkjunum," sagði Aron Einar á fundinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert