Neitaði að taka í höndina á mér

Jón Daði Böðvarsson nýtti tækifæri sitt í byrjunarliðinu vel og …
Jón Daði Böðvarsson nýtti tækifæri sitt í byrjunarliðinu vel og átti flottan leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ansi langt síðan ég spilaði síðast og það var æðislegt að fá tækifæri í byrjunarliðinu í kvöld,“ sagði Jón Daði Böðvarsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn Tyrklandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.

„Maður var farinn að sakna þess að spila fótbolta á nýjan leik, hvað þá á Laugardalsvelli, og þetta var þess vegna mjög sætur sigur. Maður rennur aðeins á adrenalíninu í svona leikjum enda stemningin alltaf frábær en ég var farinn að finna fyrir smá þreytu á 60. mínútu en hefði eflaust getað þjösnast í gegnum allan leikinn en það var klókt að taka mig af velli þarna í seinni hálfleik.“

Jón Daði spilaði lítið með Reading í ensku B-deildinni vegna meiðsla og hann spilaði síðast heilan leik með varaliði Reading í apríl.

„Mér hefur gengið mjög vel á æfingum og ég er í mjög góðu formi. Ég fór á Selfoss um leið og tímabilinu lauk og æfði með Gunna Borgþórs og ég verð að þakka honum fyrir alla hjálpina. Hann kom mér í gott stand og svo auðvitað er maður búinn að æfa vel með landsliðinu þannig að ég var klár í þetta í dag.“

Jón Daði fékk einhverjar hótanir frá tyrkneskum stuðningsmönnum í aðdraganda leiksins en var lítið að kippa sér upp við þær.

„Ég fékk helling af hótunum á Twitter en ég var lítið að pæla í því og nennti ekki einu sinni að skoða þessi skilaboð sem ég fékk. Þessi maður með burstann var ekki einu sinni Íslendingur þannig að við sýndum þeim ekkert nema virðingu, allan tímann. Ég reyndi að taka í höndina á þjálfara Tyrkja eftir leik en hann neitaði að taka í höndina á mér eftir leik. Maður reynir að sýna eins mikla virðingu og hægt er í þessu sporti og ef maður fær það ekki til baka þá er það bara þannig,“ sagði Jón Daði í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert