Karlalandslið Íslands og Tyrklands mætast í 12. sinn á knattspyrnuvellinum í kvöld en klukkan 18.45 verður flautað til leiks í viðureign þjóðanna í undankeppni EM á Laugardalsvellinum.
Í leikjunum 11 hafa Íslendingar unnið sjö leiki, Tyrkir tvo og tvisvar sinnum hefur jafntefli orðið niðurstaðan. Ísland hefur í þessum leikjum skorað 21 mark en Tyrkland 10. Tyrkjum hefur ekki tekist að skora í síðustu þremur heimsóknum sínum á Laugardalsvöllinn og þeir hafa aldrei fagnað sigri í Laugardalnum.
Ísland og Tyrkland voru saman í riðli í undankeppni fyrir HM í Rússlandi. Ísland vann fyrri leikinn á Laugardalsvellinum 2:0 og síðari leikinn í Tyrklandi 3:0.
Í undankeppninni fyrir EM 2016 voru Ísland og Tyrkland einnig saman í riðli. Ísland vann fyrri leikinn á heimavelli 3:0 en Tyrkir höfðu betur 1:0 í seinni leiknum.
Stærsti sigur Íslendinga gegn Tyrkjum er 5:1 en það urðu úrslitin í vináttleik þjóðanna á Laugardalsvellinum í júlí 1991. Arnór Guðjohnsen gerði sér þá lítið fyrir og skoraði fjögur mörk eftir að Sigurður Grétarsson hafði opnað markareikninginn fyrir íslenska liðið.