Fylkismenn skelltu toppliðinu í markaleik

Blikinn Brynjólfur Darri Willumsson skýlir boltanum í leiknum í kvöld …
Blikinn Brynjólfur Darri Willumsson skýlir boltanum í leiknum í kvöld en Fylkismennirnir Ari Leifsson og Sam Hewson sækja stíft að honum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valdimar Þór Ingimundarson átti frábæran leik fyrir Fylkismenn þegar liðið vann 4:3-sigur gegn Breiðabliki í frábærum knattspyrnuleik í 8. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld. Valdimar skoraði tvívegis fyrir Fylkismenn í leiknum og þá lagði hann einnig upp mark fyrir Geoffrey Castillion.

Leikurinn fór afar fjörlega af stað en strax á annarri mínútu átti Helgi Valur Daníelsson skalla í stöng eftir aukaspyrnu Andrésar Más Jóhannessonar. Frákastið datt fyrir Ásgeir Eyþórsson sem var einn fyrir opnu marki en hann setti boltann rétt framhjá úr upplögðu marktækifæri. Á 6. mínútu komust Fylkismenn yfir eftir frábært einstaklingsframtak Valdimars Þórs Ingumundarsonar. Valdimar pressaði þá varnarmenn Blika stíft sem renndu boltanum til baka á Gunnleif Þór í marki Blika. Gunnleifur spyrnti boltanum í Valdmar og þaðan datt hann dauður fyrir lappir Valdimars sem kláraði í opið markið og staðan orðin 1:0.

Fylkismenn héldu áfram að pressa toppliðið stíft og fengu nokkur góð tækifæri til þess að skora annað mark leiksins en á 27. mínútu átti Thomas Mikkelsen góða sendingu inn fyrir á Höskuld Gunnlaugsson. Höskuldur fór illa með Ásgeir Eyþórsson, varnarmann Fylkis, og skaut föstu skoti í nærhornið sem Aron í marki Fylkismanna réð ekki við og staðan orðin 1:1. Tveimur mínútum síðar átti Orri Sveinn Stefánsson skalla í stöng eftir hornspyrnu Fylkismann. Fylkismenn héldu áfram að vera með yfirhöndina í leiknum og Geoffrey Castillion kom þeim yfir á 42. mínútu eftir frábæran undirbúning Valdimars Þórs og staðan 2:1 í hálfleik, Fylkismönnum í vil.

Blikar voru ekki lengi að jafna metin en strax á 47. mínútu átti Aron Bjarnason frábæra sendingu fyrir markið frá hægri, Aron í marki Fylkismanna missti af boltanum, og Damir Muminovic skoraði í opið markið af stuttu færi og staðan orðin 2:2. Liðin skiptust á að sækja eftir þetta og Ásgeir Eyþórsson kom Fylkismönnum yfir í þriðja sinn í leiknum á 57. mínútu þegar Kolbeinn Birgir átti hornspyrnu frá vinstri og Ásgeir setti boltann með viðstöðulaust með vinstri fæti í fjærhornið og staðan orðin 3:2, Fylkismönnum í vil.

Valdimar Þór Ingumundarson kom Fylkismönnum í 4:2, tíu mínútum síðar, þegar Daði Ólafsson átti frábæran sprett upp vinstri kantinn. Daði renndi boltanum fyrir á Valdimar sem var einn gegn Gunnleifi og hann kláraði snyrtilega í fjærhornið af stuttu færi. Andri Rafn Yeoman minnkaði muninn fyrir Blika á 84. mínútur eftir mikinn vandræðagang í vörn Fylkismanna sem tókst ekki að hreina frá marki. Andri var fyrstur að átta sig og þrumaði boltanum í fjærhornið framhjá Aroni í marki Fylkismanna.

Blikar pressuðu Fylkismenn stíft síðustu mínútur leiksins en tókst ekki að skora og Árbæingar fögnuðu sigri. Fylkismenn fara með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar í 12 stig eftir átta leiki en Blikar eru áfram í efsta sætinu með 16 stig.

Fylkir 4:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er að minnsta kosti fjórar mínútur hér í Árbænum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert