„Þeir slógu okkur aðeins út af laginu í upphafi leiks,“ sagði Guðjón Pétur Lýðsson, miðjumaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 4:3-tap liðsins gegn Fylki í 8. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld.
„Mér fannst við samt sem áður koma tilbaka og okkur tekst að jafna leikinn. Svo komast þeir aftur yfir og aftur tekst okkur að jafna. Svo var þetta algjörlega fram og tilbaka og þegar að þeir komast í 4:2 tekst okkur aftur að minnka muninn en alltaf þegar að við vorum að koma okkur inn í leikinn kemur mótslag og þeir taka yfirhöndina. Ég verð samt að hrósa Fylkismönnum því þeir voru mjög góðir í dag og við áttum sjálfir ekki okkar besta dag.“
Blikar mættu ekki vel stemmdir til leiks og Fylkismenn hreinlega löbbuðu yfir þá í fyrri hálfleik.
„Takturinn í okkar liði í dag var ekki nægilega góður. Varnarleikurinn hjá öllu liðinu var slakur og við þurfum að laga þetta fyrir leikinn gegn Stjörnunni og svara fyrir okkur þar því það er það sem alvöru lið gera og við teljum okkur vera alvöru lið.“
Blikum hefur ekki gengið nægilega vel að stimpla sig inn í efsta sæti deildarinnar en í hvert skipti sem liðið fær tækifæri á því að ná forskoti á toppnum misstígur það sig.
„Hver leikur hefur sitt líf og í dag vorum við ekki góðir. Við munum læra af þessum leik og ég hef engar áhyggjur af því að við verðum ekki á toppnum eftir tímabilið því við ætlum okkur að vera þar og við verðum þar,“ sagði Guðjón Pétur í samtali við mbl.is.