Knattspyrnudeild Keflavíkur og danska úrvalsdeildarliðið SønderjyskE hafa komist að samkomulagi um kaup danska félagsins á hinum 18 ára efnilega varnarmanni Ísak Óla Ólafssyni. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Keflavíkur.
Ísak hefur verið lykilmaður í liði Keflavíkur síðustu ár þrátt fyrir ungan aldur og var nýverið valinn í undir 21 árs landslið Íslands. Hann hefur leikið 54 leiki með meistaraflokki og skorað í þeim 2 mörk. Þá á hann 17 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Í sumar í Inkasso-deildinni hefur Ísak verið fyrirliði liðsins. Hluti af samkomulagi liðanna er að Ísak mun leika með Keflavíkur-liðinu fram til 23. ágúst áður en hann heldur til Danmerkur.
„Við erum mjög ánægð fyrir hönd Ísaks með þessi vistaskipti og óskum honum alls hins besta. Hann mun skilja eftir sig stórt skarð í liðinu en ég efast ekki um að við munum ná að fylla það með tíð og tíma. Ísak er uppalinn hjá Keflavík og hefur spilað fyrir okkur alla tíð og er því stór hluti af Keflavíkur fjölskyldunni.
Við vorum mjög ánægð með þau samskipti sem við áttum við SønderjyskE og teljum að samkomulagið sé sanngjarnt fyrir alla aðila,“ segir Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, á Facebook-síðu félagsins.