KR mætir norska úrvalsdeildarliðinu Molde í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu en dregið var í undankeppnina í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss í dag.
Fyrri leikurinn fer fram í Noregi 11. júlí og sá síðari á Meistaravöllum í Vesturbænum 18. júlí. Molde hefur farið mjög vel af stað í norsku deildinni í sumar og er í efsta sæti deildarinnar með 25 stig eftir fyrstu tólf leiki sína og hefur þriggja stiga forskot á Odd.
Breiðablik mætir Vaduz frá Liechtenstein en Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliði Blika, lék fimm leiki með Vaduz árið 2009 þar sem hann var á láni frá HK. Fyrri leikur liðanna fer fram í Kópavogi 11. júlí en seinni leikurinn verður spilaður í Liechtenstein 18. júlí. Vaduz leikur í B-deildinni í Sviss, varð þar í 6. sæti á nýliðnu tímabili, en kemst í Evrópukeppni sem bikarmeistari Liechtenstein.
Þá fær Stjarnan eistneska liðið Levadia Tallinn í heimsókn í Garðabæinn 11. júlí og síðari leikurinn fer fram í Eistlandi 18. júlí. Levadia Tallinn endaði í öðru sæti eistnesku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð með 84 stig, tveimur stigum minna en topplið Nömme Kajlu.