„Það er bara gleði að koma þangað aftur,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliði Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir að í ljós kom að hann mun halda á fornar slóðir með Blikum eftir að liðið dróst gegn Vaduz frá Liechtenstein í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu.
Gunnleifur var á mála hjá Vaduz um tíma árið 2009, þá sem lánsmaður frá HK, en hann fór ásamt Skagamanninum Stefáni Þór Þórðarsyni og Guðmundi Steinarssyni. Guðmundur er einmitt aðstoðarþjálfari Blika í dag. Vaduz lék þá í svissnesku úrvalsdeildinni en spilar í dag í B-deildinni þar sem liðið varð í 6. sæti á nýliðnu tímabili. Vaduz keppir fyrir hönd Liechtenstein í Evrópukeppni sem bikarmeistari þar í landi.
„Við Gummi eigum góðar minningar frá okkar tíma þarna og þetta er bara mikil eftirvænting. Okkur leið mjög vel þarna, það var frábært að vera þó liðinu hafi ekki gengið nógu vel. En þetta var meiri háttar góður tími þarna fyrir fjölskylduna. Ég á fullt af kunningjum þarna,“ sagði Gunnleifur, en þekkir hann mikið til liðsins í dag?
„Nei, maður fylgist aðeins með þeim bara en þekkir ekkert af leikmönnunum. Það eru einhverjir landsliðsmenn Liechtenstein þarna, svo maður veit ekki hvort eigi að þora að afla sér upplýsinga í gegnum Helga Kolviðsson sem er landsliðsþjálfarinn þeirra núna. Við verðum að leita einhverra ráða með það.“
Miðað við þau lið sem Blikar hefðu getað fengið í drættinum telur Gunnleifur þetta hafa verið góða niðurstöðu.
„Það voru mörg gríðarlega erfið lið þarna, það var möguleiki að fá Malmö eða Brann og fara til Hvíta-Rússlands og eitthvað. Svo bæði fyrir ferðalagið og það að ég held við eigum möguleika að slá þá út þá erum bara mjög ánægðir með þetta,“ sagði Gunnleifur, en Blikar ætla sér að sjálfsögðu sem lengst.
„Engin spurning, annars væri maður ekki að bralla í þessu. Það eru allir spenntir og það er mikið gert úr því hjá Breiðablik þegar það er Evrópukeppni; Evrópubúningar og svona stemning í félaginu og mikil gleði,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliði Breiðabliks, við mbl.is.