„Ég vil alltaf byrja og það var bara mitt að sýna að ég eigi að gera það. Ég var staðráðinn í að koma inn á og breyta leiknum, það tókst og ég er mjög sáttur,“ sagði Aron Bjarnason, hetja Breiðabliks, eftir 3:1-sigur á Stjörnunni í 9. umferð Pepsi Max-deildarinnar í kvöld.
Stjarnan tók frumkvæðið og komst yfir snemma í síðari hálfleik en eftir það kom Aron inn af varamannabekknum og lét mikið að sér kveða, skoraði eitt mark og lagði upp annað.
„Mér fannst við ekki ná upp almennilegu spili í fyrri hálfleik og við vorum ekki nógu beittir. Jöfnunarmarkið auðvitað breytti leiknum og við keyrðum á þá.“
Blikar töpuðu gegn Fylki í síðustu umferð en endurheimtu toppsætið, alla vega um sinn, með sigrinum í kvöld.
„Þetta er erfiður völlur að koma á en eftir slakan leik gegn Fylki var ekkert annað í stöðunni en að koma hingað og vinna. Við ætlum okkur að vera í baráttunni og erum reynslunni ríkari frá því í fyrra. Við sýndum það í kvöld að við erum alvörulið.“