Blikarnir aftur í toppsætið

Andri Rafn Yeoman, Breiðabliki, með boltann í leiknum í dag …
Andri Rafn Yeoman, Breiðabliki, með boltann í leiknum í dag en Felix Örn Friðriksson, ÍBV, eltir hann. mbl.is/Arnþór

Breiðablik endurheimti toppsætið í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu eftir sigur á Eyjamönnum, 3:1, í fyrsta leik 10. umferðar á Kópavogsvelli í dag. Eyjamenn komust yfir og voru sterkari framan af en klaufaskapur þeirra kom Blikum aftur inn í leikinn sem lagði grunninn að sigrinum.

Eyjamenn sýndu það frá fyrstu mínútu að þeir voru klárir í slaginn. Þeir voru með yfirhöndina í allri baráttu á meðan Blikarnir voru í vandræðum. Það var svo strax á sjöttu mínútu sem Eyjamenn komust yfir og það með algjöru draumamarki.

Telmo Castanheira vann þá boltann á miðsvæðinu, lagði hann fyrir sig og lét vaða af um 30 metra færi. Skotið var hnitmiðað upp í markhornið hægra megin. Stórglæsilegt mark og Eyjamenn sýndu það næsta hálftímann eða svo að forskot þeirra var verðskuldað.

Þó Blikarnir hafi verið meira með boltann eftir því sem á leið var lítið að gerast í sóknarleiknum. Það var því nokkuð gegn gangi leiksins að þeir jöfnuðu metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir algjöran klaufagang ÍBV. Fyrirliðinn Sindri Snær Magnússon var að dóla með boltann í vörninni og sendi á markvörð sinn Halldór Pál Geirsson. Halldór Páll ætlaði að þruma fram, en skaut beint á Andra Rafn Yeoman sem kom honum inn á Kolbein Þórðarson sem skoraði. Staðan 1:1 í hálfleik.

Þetta gaf Blikunum blóð á tennurnar og þeir komust yfir eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik. Aron Bjarnason gerði þá vel vinstra megin í teignum, skaut að marki og boltinn virtist fara af Eyjamanninum Óskari Elíasi Zoega Óskarssyni og í netið, sem virtist þó lítið geta gert. Staðan orðin 2:1 fyrir Breiðabliki.

Blikar tóku yfir leikinn eftir þetta og það skilaði þriðja markinu á 74. mínútu. Aron fór þá afar illa með Óskar Elías vinstra megin, sendi fyrir þar sem Thomas Mikkelsen skoraði af stuttu færi. Staðan orðin 3:1 fyrir Blika.

Blikarnir horfðu aldrei um öxl eftir þetta og áttu fjölmörg skot undir lokin, Aron meðal annars eitt í stöng. Guðmundur Magnússon átti skalla í slá fyrir Eyjamenn þegar fimm mínútur voru eftir, en annars var sigur Blika aldrei í hættu eftir þriðja markið. Blikar eru nú komnir með 22 stig í efsta sætinu, eru tveimur stigum fyrir ofan KR sem á þó leik til góða gegn FH á morgun. Eyjamenn eru í botnsætinu með fimm stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en viðtöl koma hér inn á vefinn síðar í dag.

Breiðablik 3:1 ÍBV opna loka
90. mín. Víðir Þorvarðarson (ÍBV) á skot framhjá +2. Hörkuskot úr aukaspyrnunni en rétt framhjá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka