Pálmi Rafn Pálmason, miðjumaðurinn reyndi í KR, nær þeim stóra áfanga í kvöld að spila sinn 400. deildaleik á ferlinum, innanlands sem erlendis, þegar Vesturbæjarliðið mætir FH í 10. umferð Pepsi Max-deildarinnar í Kaplakrika. Viðureign liðanna er nýhafin.
Pálmi er að vanda í byrjunarliði KR-inga, eins og í öllum öðrum leikjum þeirra í deildinni á yfirstandandi keppnistímabili.
Hann er aðeins 25. íslenski knattspyrnumaðurinn frá upphafi sem nær að spila 400 deildaleiki á ferlinum en sá þriðji sem nær þeim áfanga á þessu ári. Hinir eru Aron Einar Gunnarsson og Bjarni Ólafur Eiríksson.
Pálmi Rafn, sem er 34 ára gamall, hóf meistaraflokksferlinn með Völsungi fimmtán ára að aldri árið 2000 og lék þar 43 leiki í 2. og 3. deild til ársins 2002.
Hann gekk þá til liðs við KA og lék þar árin 2003 til 2005, tvö í úrvalsdeild og eitt í fyrstu deild. Þar spilaði Pálmi 49 deildaleiki, þar af 31 í úrvalsdeildinni.
Frá 2006 til 2008 lék Pálmi með Valsmönnum og varð Íslandsmeistari með þeim 2007. Með Hlíðarendaliðinu spilaði hann 48 úrvalsdeildarleiki.
Seinnipart tímabilsins 2008 lá leiðin í atvinnumennsku í Noregi og þar lék Pálmi í hálft fjórða ár og spilaði 81 leik í norsku úrvalsdeildinni.
Þaðan flutti hann sig um set og spilaði í þrjú ár með Lilleström í sömu deild, en þar voru leikir hans í norsku úrvalsdeildinni 85 talsins.
Pálmi flutti heim í ársbyrjun 2015 og leikur nú sitt fimmta tímabil með KR-ingum. Leikurinn í kvöld er hans 94. úrvalsdeildarleikur með KR og þar með eru deildaleikirnir á ferlinum orðnir nákvæmlega 400 talsins.
Fyrr á þessu keppnistímabili skoraði Pálmi sitt 100. deildamark á ferlinum og því voru einnig gerð skil hér á mbl.is.