Stjarnan óstöðvandi í síðari hálfleik

Sölvi Snær Guðbjargarson með boltann á Samsung-vellinum í dag en …
Sölvi Snær Guðbjargarson með boltann á Samsung-vellinum í dag en hann skoraði mark Stjörnumanna. Valdimar Þór Ingimundarsson eltir hann. mbl.is/Arnþór

Stjarnan vann sannfærandi 5:1-sigur á Fylki í 10. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu á Samsung-vellinum í Garðabæ í dag.

Það voru gestirnir úr Árbænum sem hófu leikinn af krafti og þjörmuðu að heimamönnum sem virðast skorta sjálfstraust þessa dagana. Hákon Ingi Jónsson komst nálægt því að skora á fyrstu mínútunum þegar skot hans hrökk af tveimur varnarmönnum Stjörnunnar og rétt framhjá en annars stóð varnarleikur Garðbæinga vel.

Það var svo gegn gangi leiksins sem Stjörnumenn brutu ísinn, nánast úr sinni fyrstu sókn. Ævar Ingi Jóhannesson átti þá laglegan sprett upp hægri kantinn, gaf fyrir markið og Sölvi Snær Guðbjargarson skoraði með föstu skoti á fjærstönginni. Skotið var þó beint á Aron Snæ Friðriksson í marki Fylkis sem hefði átt að gera betur.

Það tók gestina þó ekki nema mínútu að jafna metin. Þeir keyrðu strax í sókn eftir að hafa tekið miðju, þröngvuðu boltanum inn í teig og þar myndaðist mikill darraðardans. Sóknarmaðurinn Geoffrey Castillion var þar helst í baráttunni en að lokum varð Jósef Kristinn Jósefsson fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar hann reyndi að koma boltanum í burtu.

Síðari hálfleikurinn var ekki búinn að lifa lengi þegar næsta mark bar á garð. Hilmar Árni Halldórsson rak þá knöttinn að vítateig gestanna með tilþrifum áður en brotið var á honum. Það þurfti þó ekki að flauta aukaspyrnu því boltinn barst á Ævar Inga sem lagði hann fyrir sig og skoraði svo með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið, utarlega í teignum hægra megin.

Staðan var svo 3:1 á 69. mínútu þegar Alex Þór Hauksson skoraði mark leiksins með frábæru skoti, 25 metra frá marki, en hann stýrði boltanum upp í fjærhornið. Markið var í raun það sem Stjörnumenn verðskulduðu en þeir léku á als oddi í síðari hálfleik.

Heimamenn voru ekki hættir og skoruðu fjórða markið á 83. mínútu. Jóhann Laxdal og Heiðar Ægisson léku þá knettinum sín á milli upp hægri kantinn áður en Heiðar renndi honum fyrir Hilmar Árna sem kom á ferðinni inn í teig og skoraði með föstu skoti í hornið.

Hilmar rak svo smiðshöggið á stórsigurinn með sínu öðru marki með hreinlega loka spyrnu leiksins þegar hann lék á Aron Snæ í marki Fylkis og skoraði eftir undirbúning Þorsteins Más Ragnarssonar.

Stjarnan 5:1 Fylkir opna loka
90. mín. Hilmar Árni Halldórsson (Stjarnan) skorar 5:1 - Burst! Þorsteinn Már keyrir askvaðandi inn í teig, rennir svo boltanum fyrir markið á Hilmar Árna sem nær að leika á Aron Snæ í markinu en virðist þá líka vera að klúðra færinu. Hann skýtur í snúningnum og nær að koma boltanum í hornið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert