Dramatískur sigur Víkinga í Eyjum

Halldór Smári Sigurðsson og Guðmundur Magnússon eigast við á Hásteinsvelli …
Halldór Smári Sigurðsson og Guðmundur Magnússon eigast við á Hásteinsvelli í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Víkingur Reykjavík er komið áfram í undanúrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu eftir 3:2-sigur gegn ÍBV á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í dag í átta liða úrslitum bikarkeppninnar.

Leikurinn fór fjörlega af stað og Guðmundur Magnússon kom Eyjamönnum yfir strax á 13. mínútu með laglegu skoti úr teignum. Guðmundur var aftur á ferðinni á 32. mínútu þegar hann skallaði knöttinn í netið eftir hornspyrnu Eyjamanna og staðan 2:0 í hálfleik.

Sölvi Geir Ottesen minnkaði muninn fyrir Víkinga á 57. mínútu með skallamarki og Nikolaj Hansen jafnaði metin á 80. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Það var svo Erlingur Agnarsson sem skaut Víkingum í undanúrslit með marki á 84. mínútu eftir laglegan undirbúning Nikolaj Hansen.

Víkingar eru því fyrsta liðið til þess að tryggja sig áfram í undanúrslit keppninnar en ÍBV er úr leik.

ÍBV 2:3 Víkingur R. opna loka
90. mín. 5 mínútur í uppbótartíma
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert