Breiðablik er komið í undanúrslit Mjólkurbikars karla í fótbolta eftir 4:2-sigur á Fylki á heimavelli. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 2:2 og því þurfti að framlengja. Í framlengingunni voru heimamenn sterkari, en fengu hjálp frá Einari Inga Jóhannssyni, dómara leiksins.
Fylkismenn byrjuðu af krafti og sköpuðu sér nokkur fín færi í upphafi leiks. Það var því verðskuldað þegar Valdimar Þór Ingimundarson skoraði eftir 12. mínútna leik. Hann kláraði þá af stuttu færi eftir góðan undirbúning Kolbeins Finnssonar og Geoffrey Castillion.
Eftir markið vöknuðu leikmenn Breiðabliks og tóku algjörlega yfir leikinn. Eftir harða sókn kom jöfnunarmarkið á 33. mínútu. Thomas Mikkelsen skoraði þá af öryggi úr vítaspyrnu eftir að Daði Ólafsson keyrði inn í Höskuld Gunnlaugsson í teignum.
Breiðablik hélt áfram að sækja eftir markið, en tókst ekki að bæta við öðru marki. Fylkismenn voru svo hársbreidd frá því að komast yfir, þvert gegn gangi leiksins, í blálok hálfleiksins. Castillion komst einn í gegn en skaut rétt framhjá markinu og staðan í leikhléi var því 1:1.
Liðin skiptust á að skapa færi í seinni hálfleik, en það voru heimamenn sem komust yfir á 59. mínútu. Thomas Mikkelsen náði þá í vítaspyrnu og skoraði úr henni sjálfur. Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Valdimar Þór hins vegar með sínu öðru marki.
Hann potaði þá boltanum inn af stuttu færi eftir að Castillion náði að koma boltanum á milli fóta Gunnleifs og eftirleikurinn var auðveldur hjá Valdimar. Leikurinn var mjög jafn það sem eftir lifði leiktímans og lítið um færi. Staðan eftir venjulegan leiktíma var því 2:2 og því varð að framlengja.
Í framlengingunni var Höskuldur Gunnlaugsson stjarnan. Hann kom Breiðabliki í 3:2 í blálok fyrri hálfleiksins þegar hann skoraði af stuttu færi. Markið átti ekki að standa þar sem Höskuldur var bæði í rangstöðu og brotlegur. Einar Ingi Jóhannsson dæmdi hins vegar mark.
Strax í upphafi seinni hálfleiks framlengingarinnar bætti Höskuldur við öðru marki. Hann kláraði þá auðveldlega í opið markið eftir skógarhlaup hjá Aroni Snæ í marki Fylkis. Fylkismenn voru ekki nálægt því að minnka muninn eftir það og getur Breiðablik því komist í bikarúrslit annað árið í röð.