„Þetta var bara baráttuleikur eins og búast mátti við og þetta hefði getað fallið okkar megin líka. Það gerðist ekki í dag því miður. Þór/KA kláraði þetta bara vel og við verðum að óska þeim til hamingju með sigurinn,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Valskvenna í dag eftir tap gegn Þór/KA í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Þór/KA vann 3:2 eftir að Valur hafði jafnað leikinn skömmu fyrir leikslok.
Eins og þú segir þá hefðu þetta allt eins getað dottið með ykkur.
„Í stöðunni 1:1 fengum við fín færi til að komast yfir, þar af eitt dauðafæri. Við nýttum færin ekki nógu vel og var refsað fyrir það.“
Það er skammt stórra högga á milli hjá ykkur. Næsti deildarleikur er gegn Breiðabliki á miðvikudaginn en það er, eins og staðan er núna, eini keppinautur ykkar á toppi Pepsi Max-deildarinnar. Hvernig sérðu þann leik?
„Undirbúningur fyrir þann leik byrjar bara á morgun. Það verður hörkuleikur líka, bara eins og allir leikirnir í deildinni. Það eru þrjú stig í boði og við lítum bara á leikinn þannig. Þessi leikur er í áttundu umferð og nóg eftir af mótinu.“
Ykkur hefur gengið allt í haginn það sem af er sumars. Mun þetta tap í dag ekki bara æsa enn upp í ykkur fyrir leikinn á miðvikudaginn?
„Við vildum náttúrulega fara áfram í bikarkeppninni en þetta eru bara allt hörkuleikir og það skiptir ekki máli hvort það er gegn Breiðabliki eða öðrum liðum. Við þurfum að vera klár í alla leiki.“
Þið hafið skorað mikið í síðustu leikjum, hreinlega dælt inn mörkum. Tvö mörk í dag var ekki nóg. Var eitthvað sérstakt sem þú sást í leiknum sem var öðruvísi en í síðustu leikjum?
„Þór/KA er bara með hörkulið og það er ekkert launungarmál að þegar þú kemur hingað norður þá þarftu að hafa fyrir hlutunum. Við fengum okkar færi en svona er þetta stundum bara í fótboltanum. Þetta gat farið á hvorn veginn sem var,“ sagði Pétur að lokum