Mömmu bannað að æfa en Sveindís sló ung í gegn

Sveindís Jane Jónsdóttir er leikmaður júní mánaðar hjá Morgunblaðinu.
Sveindís Jane Jónsdóttir er leikmaður júní mánaðar hjá Morgunblaðinu. mbl.is/Hari

Sveindís Jane Jónsdóttir er á sinni fimmtu leiktíð með meistaraflokki Keflavíkur. Fyrir tæpum þremur árum var hún fengin á sínar fyrstu æfingar með A-landsliði Íslands. Hún er burðarás í liði Keflavíkur og hefur skorað þrjú mörk í sex leikjum í úrvalsdeildinni í fótbolta í sumar og átt sinn þátt í því að nýliðarnir eru ekki í fallsæti. Það kann því að koma einhverjum á óvart að Sveindís er aðeins nýorðin 18 ára.

Sveindís og Natasha Anasi, liðsfélagi hennar í Keflavík, stóðu upp úr í júnímánuði í Pepsi Max-deildinni. Keflavík vann tvo frábæra sigra í júní, 4:0 gegn KR á útivelli og svo 5:0 gegn Stjörnunni á heimavelli, en aðeins voru leiknar tvær umferðir í mánuðinum. Auk þeirra er markvörðurinn Aytac Sharifova frá Kasakstan í úrvalsliði mánaðarins hjá Morgunblaðinu en hún kom til liðs við Keflavík eftir að Íslandsmótið hófst og hefur staðið sig mjög vel.

„Við höfum átt þetta inni. Við vorum alveg búnar að standa okkur vel í þessum fimm tapleikjum en hlutirnir féllu ekki með okkur, ef svo er hægt að segja. Síðan small þetta í síðustu leikjum og vonandi heldur það þannig áfram. Við fengum alveg að heyra það að þetta yrði bara eins og hjá karlaliði Keflavíkur í fyrra, sem féll strax niður án þess að vinna leik, en við nenntum ekki að vera svona lið sem að bíður alltaf eftir sigri. Við vorum staðráðnar í að setja í næsta gír og gerðum það,“ segir Sveindís.

Bíð eftir öðru tækifæri

Það var snemma ljóst að miklir hæfileikar byggju í Sveindísi en sumarið 2016 skoraði hún 27 mörk í 19 leikjum fyrir Keflavík í 1. deildinni, 15 ára gömul. Þess vegna sá Freyr Alexandersson þáverandi landsliðsþjálfari ástæðu til þess að kalla hana til æfinga um haustið, í æfingahóp leikmanna sem spiluðu með íslenskum félagsliðum: „Ég man vel eftir því. Það var mjög skemmtilegt, enda var ég nú ekkert að stefna á A-landsliðið þá. Ég bíð eftir öðru svona tækifæri, vonandi bráðlega. Ég er enn gjaldgeng í U19-landsliðinu en það væri ótrúlega skemmtilegur bónus að fá tækifæri alla vega til að æfa með A-landsliðinu.“

Sjá má greinina í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag þar sem útnefndur er leikmaður júnímánaðar og birt úrvalslið Morgunblaðsins fyrir júnímánuð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert