Toppliðin mæta botnliðunum

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. mbl.is/​Hari

KR og Breiðablik fá tækifæri um helgina til að styrkja enn frekar stöðu sína á toppi úrvalsdeildar karla í fótbolta en andstæðingar þeirra eru tvö neðstu lið deildarinnar, ÍBV og HK.

Rúnar Kristinsson og hans lærisveinar í KR náðu fjögurra stiga forskoti á Blika með sigri í leik liðanna á mánudagskvöldið og í dag verða Vesturbæingar mættir á goslokahátíðina í Vestmannaeyjum þar sem þeir mæta ÍBV klukkan 16. Segja má að himinn og haf skilji liðin að; KR er með 26 stig á toppnum og hefur unnið sjö leiki í röð en ÍBV er með fimm stig á botninum og hefur unnið einn leik af tíu í sumar.

Breiðablik fær nágranna sína í HK í heimsókn á Kópavogsvöll annað kvöld klukkan 19.15. Það verður þriðja viðureign liðanna á tveimur mánuðum en þau skildu jöfn, 2:2, í deildinni í byrjun maí og Blikar unnu bikarleik þeirra í lok maí, 3:1. Blikar eru með 22 stig í öðru sæti en HK átta stig í næstneðsta sætinu.

Þá mætast ÍA og Fylkir á Akranesi í dag klukkan 14 en Skagamenn eru með 17 stig í fjórða sæti og Fylkir er með 15 stig í sjötta sæti. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert