Blikar þurfa að sækja í Liechtenstein

Höskuldur Gunnlaugsson í baráttunni á Kópavogsvelli í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson í baráttunni á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik þarf að sækja á útivelli gegn Vaduz frá Liechtenstein, en liðin gerðu markalaust jafntefli í fyrri viðureign sinni í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

Blikar byrjuðu fyrri hálfleikinn af krafti, en gestirnir frá Liechtenstein voru afar þéttir til baka og öskufljótir fram þegar þeir reyndu að komast í færi. Vaduz fékk langbesta færi fyrri hálfleiks þegar Tunahan CIcek slapp einn í gegn eftir stungusendingu, stakk varnarmenn Blika af en náði engum krafti í skot sitt.

Blikar hresstust nokkuð undir lok hálfleiksins og aukaspyrnur Guðjóns Péturs Lýðssonar ollu usla, en staðan markalaus í hálfleik.

Blikar ætluðu greinilega að svara kraftinum í Vaduz-liðinu eftir hlé, en það voru engu að síður gestirnir sem voru nærri því komnir yfir snemma í síðari hálfleik. Eftir vandræðagang í vörn Blika náði Cédric Gasser skalla sem fór í þverslána og boltinn fór þaðan niður á línu. Stórhætta, en staðan enn markalaus.

Bæði lið fengu sín hálffæri það sem eftir lifði leiksins og það voru gestirnir í liði Vaduz sem voru ívið sterkari. Inn vildi boltinn hins vegar ekki, niðurstaðan markalaust jafntefli og því yrði mark á útivelli í síðari leiknum Blikum afar mikilvægt.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en liðin mætast í síðari leiknum í Liechtenstein á fimmtudaginn eftir viku.

Breiðablik 0:0 Vaduz opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert