Glæsilegt sigurmark Valgeirs og tvö rauð í lokin

Leikmenn HK fagna marki Björns Bryde í Kórnum í dag.
Leikmenn HK fagna marki Björns Bryde í Kórnum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

HK sigraði KA, 2:1, í fjörugum leik í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í Kórnum í Kópavogi í dag og Kópavogsliðið hefur nú unnið tvo leiki í röð en KA tapaði fjórða leiknum í röð.

Tvö rauð spjöld fóru á loft í uppbótartíma leiksins.

Valgeir Valgeirsson, sextán ára gamall piltur, skoraði sigurmark HK með glæsilegu skoti á 84. mínútu. Hin mörkin komu í fyrri hálfleik, Björn Berg Bryde kom HK yfir en Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði fyrir KA úr vítaspyrnu.

HK er þá komið með 14 stig og fer upp í áttunda sæti deildarinnar en KA sígur niður í tíunda sætið með 12 stig.

Leikurinn var í jafnvægi frá byrjun. Liðin sköpuðu sér ekki mörg færi í fyrri hálfleiknum sem þó var í heildina vel leikinn og nokkuð opinn, og voru búin að fá hvort sitt hálffærið þegar HK náði forystunni á 33. mínútu.

HK-ingar vildu fá vítaspyrnu þegar Ásgeir Marteinsson var kominn einn gegn markverði og féll í baráttu við hann en niðurstaðan varð hornspyrna. Ásgeir tók spyrnuna frá hægri, sendi boltann með jörðu inná markteiginn og Björn Berg Bryde skoraði með föstu skoti, 1:0.

HK-ingar voru aðgangsharðir eftir markið og virtust líklegir til að bæta við. En á 43. mínútu fékk KA vítaspyrnu þegar brotið var á Ásgeiri Sigurgeirssyni og Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði úr henni af miklu öryggi. Staðan var því 1:1 í hálfleik.

Upphafsmínútur seinni hálfleiks voru mjög líflegar. HK sótti og átti þokkalegar tilraunir. KA komst hinsvegar í sókn á 49. mínútu, Ásgeir Sigurgeirsson komst inní skalla til Arnars Freys Ólafssonar markvarðar HK og var einn gegn honum á vítateigslínu en Arnar náði að verja glæsilega.

Þremur mínútum síðar átti Birkir Valur Jónsson fyrirgjöf fyrir mark KA, boltinn fór í varnarmann og þaðan í þverslána og út.

Björn Berg átti ágætan skalla á mark KA eftir hornspyrnu á 67. mínútu en Kristijan Jajalo í marki KA varði.

Leifur Andri Leifsson var nærri því að skora frá miðju á 72. mínútu. Hann sá að Jajalo var framarlega og skaut yfir hann en boltinn fór hárfínt framhjá marki KA.

KA gerði harða hríð að marki HK á 78.-79. mínútu og átti þrjú færi með stuttu millibili. Arnar Freyr varði í tvígang og Elfar Árni Aðalsteinsson átti loks skot yfir úr dauðafæri á markteig.

Á 84. mínútu fékk HK aukaspyrnu út við vinstri hornfána. Ásgeir Marteinsson sendi fyrir markið, KA-menn skölluðu frá en Valgeir Valgeirsson fékk boltann á vítateigslínu og skoraði með glæsilegu skoti upp í markhornið vinstra megin, 2:1.

Í uppbótartímanum sauð uppúr þegar stimpingar urðu við hornfána KA-megin. Bjarni Gunnarsson framherji HK fékk þá rauða spjaldið. Rétt eftir að leikurinn hófst á ný fékk Steinþór Freyr Þorsteinsson í liði KA rauða spjaldið eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald.

HK 2:1 KA opna loka
90. mín. Leik lokið HK innbyrðir þrjú dýrmæt stig eftir mikinn hasar í lokin!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert