„Ég er fyrst og fremst pirraður að hafa ekki unnið þennan leik því við fengum svo sannarlega færin til þess að klára þetta hérna í kvöld,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Fylki í níundu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Víkingsvelli í Fossvoginum í kvöld.
„Við viljum vinna alla leiki á heimavelli og mér fannst við fá hættulegri færi en þeir í leiknum. Þetta er ákveðið svekkelsi því við erum búnir að gera tvö jafntefli núna á heimavelli þar sem mér finnst að við hefðum átt að fá eitthvað meira út úr þeim leikjum. Við erum orðnir þéttari til baka en erum samt að skapa okkur helling af færum þannig að það er lítið annað að gera en að halda áfram og vonast til þess að kjúklingarnir frammi fari að vera aðeins kaldari og setj'ann í netið.“
Víkingar fóru illa með nokkur færi í kvöld og virkuðu oft og tíðum bæði kærulausir og hrokafullir í færum sínum en Sölvi hefur fulla trú á að þeir fari að skora í næstu leikjum.
„Þeir eru að gera vel í að koma sér í þessi færi en það vantar bara aðeins meiri reynslu til að klára þetta. Það hefur sýnt sig í síðustu leikjum að við erum að bæta okkur á síðasta þriðjungnum og ég veit að þetta mun detta hjá þeim á endanum. Ungu strákarnir eru búnir að standa sig frábærlega í sumar, þeir eru alltaf að bæta sinn leik og næst á dagskrá er að skora úr færunum sínum.“
Uppskera Víkinga í sumar er afar rýr en liðið ætlar sér ekki að breyta um taktík, þrátt fyrir að vera að daðra við fallið.
„Við erum að spila flottan fótbolta og við erum bæði búnir að vera óheppnir í ákveðnum leikjum, sem og klaufar. Við þurfum aðeins að fínstilla okkur en það er vissulega svekkjandi að vera ekki komnir með fleiri stig. Þetta er engin krísa en við þurfum að fara að átta okkur á stöðunni sem við erum í og spýta aðeins í lófana því það vantar ekki mikið upp á,“ sagði Sölvi Geir í samtali við mbl.is.