Líklega er þetta sanngjarnt

Óli Stefán Flóventsson þjálfari KA.
Óli Stefán Flóventsson þjálfari KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er eins og alltaf stoltur af strákunum og stoltur af fólkinu okkar sem mætti hérna í dag til að styðja við bakið á okkur,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA eftir 1:1 jafntefli gegn ÍA í 13. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í leik sem lauk nú fyrr í dag. 

„Það var dugnaður og kraftur í okkur. Þó svo að leikfræðin og flæðið í spilinu hafi ekki alltaf gengið upp en stundum er það ekki aðal atriðið.“ 

„Mér fannst að í ákveðnum upphlaupum hefðum við getað gert betur.  Það vantaði upp á síðustu snertinguna, síðustu sendinguna eða skotið. En þegar gengið hefur verið eins og undanfarið, verður maður bara að vera tilbúinn í það. Ég hefði viljað að þetta hefði fallið okkar megin en mér fannst það mikið jafnræði með liðunum í dag að líklega er jafntefli sanngjarnt.“

Tveir leikmenn sem hafa ekki spilað fyrir KA í sumar spiluðu hér í dag. Iosu Villar sem kom frá Spáni  fyrr í mánuðinum og Ívar Örn Árnason sem nýlega var kallaður úr láni frá Víkingi Ólafsvík. Óli var ánægður með þeirra framlag:

„Spánverjinn er góður fótboltamaður. Hann er kröftugur og kom með það inn. En það vantar aðeins upp á leikform hjá honum. Svo kom Ívar bara með þetta sannkallaða KA hjarta inn. Þetta er KA-strákur og gefur okkur mikið.“ 

Aðspurður um möguleikann á  fleiri nýjum leikmönnum sagði Óli að það gæti vel komið til greina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert