Minnir á Brighton undir stjórn Hughton

Andri Rafn Yeoman.
Andri Rafn Yeoman. mbl.is/Árni Sæberg

Blikinn Andri Rafn Yeoman segir enn mikið vera eftir af Íslandsmótinu í knattspyrnu en Breiðablik er sjö stigum á eftir toppliði KR. Hefði liðinu tekist að vinna Grindavík á heimavelli í kvöld væri munurinn á liðunum fimm stig en það tókst ekki. 

„Auðvitað er maður svekktur. Við ætluðum okkur að vinna þennan leik en við mættum vel skipulögðu og flottu Grindavíkurliði. Þeir náðu að verjast okkur nokkuð vel og halda okkur niðri á löngum köflum. Við fengum nokkur færi til að skora og það var margt jákvætt í þessu. Það var fínt flæði í spilinu hjá okkur og hefðum við bara skorað eitt mark þá hefðu allir verið glaðir. Það er stutt á milli í þessu,“ sagði Andri þegar mbl.is spjallaði við hann en andstæðingarnir frá Grindavík eru orðnir þekktir fyrir að halda marki sínu hreinu. 

„Já heldur betur. Þeir leggja leikina frábærlega upp. Þeir þekkja sitt skipulag og vita hvað þeir eru að fara út í. Þeir minna mig bara oft á Brighton undir stjórn Chris Hughton því þetta er svo taktískur og flottur varnarleikur. Það er erfitt að skora á móti þeim og það má alveg hrósa þeim fyrir það.“

KR spilaði í gær og gerði þá jafntefli við Stjörnuna. Blikar vissu því í dag að þeir myndu naga forskotið niður í fimm stig með sigri. 

„Þetta var ákveðið tækifæri til að komast nær þeim en fyrst og fremst vildum við reyna að vinna leikinn eins og alltaf. Eins og umferðin spilaðist er þetta meira svekkjandi en ella. Það eru margir leikir eftir og við reynum að vinna þá og sjá svo til hverju það skilar okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert