Til hamingju með titilinn KR

Gísli Eyjólfsson var ómyrkur í máli í samtali við mbl.is …
Gísli Eyjólfsson var ómyrkur í máli í samtali við mbl.is eftir leik liðsins gegn Víkingum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þetta var bara lélegt hjá okkur,“ sagði Gísli Eyjólfsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 3:2-tap liðsins gegn Víkingum í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í 14. umferð deildarinnar á Víkingsvelli í Fossvogi í kvöld.

„Þetta var karaktersigur hjá Víkingum á meðan við sýndum lítinn sem engan karakter í leiknum. Alltaf þegar að við komumst inn í leikinn gefum við þetta auðveldlega frá okkur. Ég átti að skora þarna eftir fimmtán mínútna leik en ég veit hreinlega ekki hvað ég á að segja eftir þessa frammistöðu.  Kannski er það bara þannig að Breiðablik höndlar það ekki að berjast um þann stóra en það er lítið annað að gera en að girða sig í brók og halda áfram.“

Gísli hefur ekki átt fast sæti í liði Blika síðan hann kom aftur heim eftir dvöl hjá sænska B-deildarliðinu Mjällby en hann segir að það sé ákvörðun þjálfarans hvort hann spili eða ekki.

„Ég er í mjög góðu standi en það er ákvörðun þjálfarans að setja mig ekki strax í liðið. Ég hef þurft að sanna mig á nýjan leik eftir sex mánaða fjarveru sem er kannski ekkert sérstaklega langur tíma en það er eins og það er og þetta er ákvörðun þjálfarans.“

Breiðablik er nú 10 stigum á eftir toppliði KR þegar átta umferðir eru eftir af mótinu og Gísli telur að titilinn sé á leiðinni í Vesturbæinn.

„Ég held að það sé óhætt að segja að titilinn sé á leiðinni í Vesturbæinn og við getum farið að óska KR til hamingju með titilinn,“ sagði Gísli í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka