Baldur Sigurðsson, knattspyrnumaðurinn reyndi úr Stjörnunni, náði tveimur áföngum í kvöld þegar hann lék með Garðabæjarliðinu gegn Espanyol í undankeppni Evrópudeildarinnar og skoraði mark liðsins í 1:3 ósigri.
Baldur varð í kvöld þriðji leikmaðurinn til að spila 40 Evrópuleiki með íslenskum karlaliðum en hann hefur náð þeim áföngum sem leikmaður Keflavíkur, KR og Stjörnunnar. Á undan honum eru tveir FH-ingar, Atli Guðnason sem hefur spilað 47 Evrópuleiki fyrir Hafnarfjarðarliðið og Davíð Þór Viðarsson sem hefur spilað 42 leiki.
Þá varð Baldur í kvöld tólfti leikmaðurinn til að skora fimm mörk eða meira í Evrópukeppni fyrir íslenskt félag í karlaflokki. Þetta var annað mark hans fyrir Stjörnuna en hann hafði áður skorað tvö mörk fyrir KR og eitt fyrir Keflavík.
Baldur er jafnframt einn þriggja leikmanna sem hafa skorað Evrópumörk fyrir þrjú íslensk félög en hinir eru Sigurvin Ólafsson (FH, ÍBV og KR) og Arnar Gunnlaugsson (ÍA, KR og FH).
Þeir tólf leikmenn sem hafa skorað 5 mörk eða meira fyrir íslensk karlalið í Evrópukeppni eru eftirtaldir:
11 Atli Guðnason, FH
10 Tryggvi Guðmundsson, ÍBV, FH
8 Kjartan Henry Finnbogason, KR
7 Atli Viðar Björnsson, FH
6 Mihajlo Bibercic, ÍA, KR
6 Ólafur Karl Finsen, Stjörnunni
5 Baldur Sigurðsson, Keflavík, KR, Stjörnunni
5 Hermann Gunnarsson, Val
5 Hörður Sveinsson, Keflavík
5 Ríkharður Daðason, KR, Fram
5 Sigurvin Ólafsson, FH, ÍBV, KR
5 Steven Lennon, FH
Mark Baldurs í kvöld er aðeins fimmta markið sem íslenskt lið skorar gegn spænskum mótherjum í Evrópukeppni, í fjórtán leikjum.
Jóhann Þorvarðarson og Sverrir Herbertsson skoruðu fyrir Víking R. þegar liðið tapaði naumlega, 3:2, fyrir Real Sociedad á útivelli í Evrópukeppni meistaraliða árið 1982.
Benedikt Árnason og Baldur Bett skoruðu mörk FH sem gerði jafntefli, 2:2, við Villarreal í UEFA/Intertoto-keppninni í Kaplakrika árið 2002.
Í hinum ellefu leikjunum gegn spænskum liðum hafa þau íslensku ekki náð að skora og jafntefli FH-inga gegn Villarreal er eini leikurinn sem ekki hefur tapast.
Íslensk lið gegn spænskum mótherjum:
1972 Keflavík - Real Madrid, 0:1 og 0:3
1974 Fram - Real Madrid, 0:2 og 0:6
1979 ÍA - Barcelona, 0:1 og 0:5
1982 Víkingur - Real Sociedad, 0:1 og 2:3
1988 Fram - Barcelona, 0:2 og 0:5
2002 FH - Villarreal, 2:2 og 0:2
2019 Stjarnan - Espanyol, 1:3 og 0:4