Blikar skutu KA í kaf

Viktor Karl Einarsson með boltann í sigrinum gegn KA í …
Viktor Karl Einarsson með boltann í sigrinum gegn KA í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik styrkti stöðu sína í öðru sæti úrvalsdeildar karla í fótbolta í kvöld með því að sigra KA af öryggi, 4:0, á Kópavogsvelli.

Blikar unnu þar með í fyrsta skipti í fimm leikjum og eru nú komnir með 26 stig, tíu stigum á eftir toppliði KR þegar sjö umferðum er ólokið.

KA situr áfram í næstneðsta sætinu með 16 stig, jafnmörg og Víkingur sem er þessa stundina að spila við Stjörnuna, og einu minna en Grindavík.

Breiðablik var sterkari aðilinn frá byrjun og Gísli Eyjólfsson átti góða tilraun af 20 m færi strax á 4. mínútu þegar Aron Dagur Birnuson markvörður KA varði glæsilega í horn frá honum.

Blikar náðu forystunni á 21. mínútu eftir góða sókn upp hægri kantinn. Davíð Ingvarsson komst að endamörkum og sendi með jörðu inn á markteiginn þar sem Thomas Mikkelsen skoraði með viðstöðulausu skoti, 1:0.

Í leiðinni rákust saman Aron Dagur markvörður og varnarmaður KA með þeim afleiðingum að Aron meiddist og var borinn af velli. Kristijan Jajalo kom í markið í hans stað.

KA fékk sitt besta færi í fyrri hálfleik á 33. mínútu þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson komst inn í vítateiginn hægra megin en Gunnleifur Gunnleifsson lokaði vel á hann og varði skotið.

Breiðablik komst í 2:0 á 36. mínútu. Alexander Helgi Sigurðarson tók aukaspyrnu rétt utan við vítabogann, fyrir miðju marki, og skaut með föstu skoti í stöngina og inn, hægra megin.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn betur en KA komst síðan vel inn í leikinn eftir fyrstu tíu mínúturnar og sótti talsvert. Ásgeir Sigurgeirsson komst í gott færi á 54. mínútu en skaut fram hjá Blikamarkinu.

Mikkelsen fékk dauðafæri til að skora þriðja mark Blika á 67. mínútu þegar hann slapp inn fyrir vörn KA en skaut fram hjá markinu úr þröngu færi.

En það var Mikkelsen sem gerði út um leikinn á 80. mínútu. Guðjón Pétur Lýðsson stal boltanum af KA-mönnum eftir innkast þeirra á miðjum velli og átti glæsilega stungusendingu á Mikkelsen sem slapp inn fyrir vörnina og skoraði af yfirvegun sitt annað mark, 3:0.

Blikar voru ekki hættir og tveir varamanna þeirra skópu fjórða markið á 87. mínútu. Karl Friðleifur Gunnarsson sendi inn í vítateiginn á Brynjólf Darra Willumsson sem skoraði á laglegan hátt, 4:0.

Breiðablik 4:0 KA opna loka
90. mín. 3 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert