Íslandsmeistarar Breiðabliks fara vel af stað í undanriðli Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu, en liðið spilaði fyrsta leik sinn í Sarajevó í Bosníu í dag. Mótherjinn var meistaraliðið frá Ísrael, ASA Tel Aviv, en Blikar unnu 4:1 við nokkuð krefjandi aðstæður vegna mikils hita.
Blikarnir þurftu ekki að taka sér mikinn tíma til þess að kynnast mótherjanum, því Alexandra Jóhannsdóttir skoraði strax á fjórðu mínútu. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, sem var frábær á hægri kantinum, sendi þá fyrir og Alexandra skallaði í netið.
Ísraelska liðið minnti þó á sig eftir tæplega tuttugu mínútna leik þar sem liðið átti skalla í stöng, sem vakti Blika því fimm mínútum síðar kom annað markið. Aftur var það Karólína Lea sem gerði vel, kom boltanum á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur sem sendi fyrir og Agla María Albertsdóttir skallaði í netið.
Blikar hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk, flest eftir undirbúning Karólínu, en staðan 2:0 í hálfleik.
Ísraelska liðið minnti aftur hressilega á sig í byrjun síðari hálfleiks þegar liðið átti þrumuskot í þverslá eftir aukaspyrnu inn á teiginn. Blikarnir stjórnuðu hins vegar áfram ferðinni og á 60. mínútu tók Agla María hornspyrnu. Hildur Þóra Hákonardóttir náði skallanum í teignum og skoraði, 3:0.
Agla María var svo sjálf á ferðinni sex mínútum síðar. Alexandra var felld í teignum og Agla María skoraði örugglega úr vítaspyrnu sem dæmd var, staðan orðin 4:0.
Blikarnir fengu hins vegar á sig óþarfa mark stuttu síðar, en misskilningur í vörninni og léleg hreinsun varð til þess að Shira Elinav skoraði í autt markið. Staðan 4:1 þegar tuttugu mínútur voru eftir.
Blikarnir stjórnuðu ferðinni það sem eftir lifði leiks, en þurfti einnig að verjast skyndisóknum ísraelska liðsins. Ekki urðu mörkin þó fleiri og lokatölur 4:1 fyrir Breiðablik. Næsti leikur Blika er gegn Dragon, meistaraliði Norður-Makedóníu, á laugardag og sá síðasti gegn heimaliði Sarajevó á þriðjudag. Efsta lið riðilsins kemst áfram í 32ja-liða úrslit keppninnar.
Mbl.is er með Breiðabliki í Bosníu og fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu frá Sarajevó sem sjá má hér að neðan.