Ragnar Bragi vitnaði í Klopp

Ragnar Bragi Sveinsson í hörðum slag.
Ragnar Bragi Sveinsson í hörðum slag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst okkar frammistaða flott,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson, leikmaður Fylkis, í samtali við mbl.is í kvöld. Hann var sáttur við frammistöðu liðsins, þrátt fyrir 0:1-tap gegn Val í Pepsi Max-deildinni í fótbolta. Valsmenn voru sterkari í fyrri hálfleik, en Fylkir fékk góð færi í þeim seinni. 

„Einhverjum fannst við lélegir í fyrri hálfleik en við ætluðum að liggja til baka. Við ætluðum að verja markið okkar fyrstu 60 mínúturnar og setja síðan hápressuna á þá, eins og við gerðum. Því miður fengum við þetta mark á okkur og það kostar rosalega vinnu að liggja svona langt til baka. Við erum mjög svekktir að ná alla vega ekki stigi úr þessum leik.

Það vantaði að setja boltann aðeins fjær markmanninum eða aðeins neðar við slána. Það var það eina og við áttum að klára þessi færi betur,“ sagði Ragnar, sem sjálfur fékk gott færi í seinni hálfleik eftir flottan sprett, en skaut í slá. „Ég átti að gera betur þar, því hlaupið fram að því var nokkuð fínt.“

Fylki hefur vantað stöðugleika í sumar. Í maí vann liðið ekki í fimm leikjum í röð, en vann svo þrjá í röð eftir það. Síðan hafa aðeins tveir sigurleikir litið dagsins ljós í átta leikjum í öllum keppnum. 

„Auðvitað er það pirrandi. Það er það erfiðasta í þessu, að ná stöðugleika. Maður sá það síðast í þessari viku þegar Jürgen Klopp talaði um að það væri rosalega lítill munur á efstu liðunum á Englandi og hinum. Eini munurinn er stöðugleikinn,“ sagði Ragnar, sem er spenntur fyrir framhaldinu. Fylkismenn eru stutt frá botninum, en einnig er stutt í Evrópusætin. 

„Staðan eins og hún er núna er spennandi. Við erum búnir að tapa tveimur í röð núna, en ef þetta væru tveir sigurleikir í röð værum við komnir í allt annan pakka. Þessi deild er spennandi,“ sagði Ragnar Bragi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert